Keppt í skógargreinum, upplifunarganga, tálgun, eldsmíði, grill og margt fleira

Skógræktarfélag Reykjavíkur efnir til Skógarleika laugardaginn 1. júlí, þeirra þriðju í röðinni. Eins og fyrri ár verður ævintýraleg stemmning í Furulundi þar sem gestir á öllum aldri njóta töfra skógarins. Skógarhöggsmenn leiða saman hesta sína og keppa í hefðbundnum skógarhöggsgreinum svo sem axarkasti, sporaklifri, bolahöggi og afkvistun trjábola. Gestir fá tækifæri til að spreyta sig á axarkasti og Orri arboristi sýnir trjáklifur í línu.

Í ár verður gestum einnig boðið í upplifunargöngu um skóginn undir leiðsögn Ólafs Oddssonar, fræðslufulltúa Skógræktarinnar, þar sem leyndardómar skógarins verða afhjúpaðir. Þá geta yngstu gestirnir spreytt sig á að tálga nýhöggvinn við og fylgst með eldsmiði hamra heitt járnið yfir logandi eldi. Teepee-tjald verður reist og þar verður hægt að kjarna sig undir seiðandi stemmningu.

Gestum er svo að sjálfsögðu boðið í grillveislu þar sem skógarbrauð á priki, pylsur og annað góðgæti verður grillað yfir varðeldi og rjúkandi ketilkaffi verður einnig á boðstólum.

Skógræktarfélagið bíður alla hjartanlega velkomna í Furulund!

Laugardaginn 1. júlí frá kl. 13-17 í Furulundi í Heiðmörk.

Texti: Skógræktarfélag Reykjavíkur