Náttúrufræðistofnun Íslands hefur afhent Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá óvenjustórt viðarnýra sem rak á land við Broddadalsá á Ströndum laust eftir síðustu aldamót. Með árhringjagreiningu hefur uppruni þess verið rakinn til vatnasvæðis Pechora-árinnar í Rússlandi rétt austan við Arkangelsk. Nýrað verður varðveitt á Mógilsá og haft til sýnis almenningi.
Stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga, starfsmenn, félagsfólk og fjölskyldur komu saman á laugardag í Kjarnaskógi á árlegum gróðursetningardegi félagsins. Gróðursett voru 70 rósakirsitré og ýmsar fleiri blómstrandi tegundir trjáa, runna og fjölæringa í tilefni af því að í ár eru 70 ár liðin frá því að starfsemi gróðrarstöðvar hófst í Kjarnaskógi.
Skógræktarfélag Borgarfjarðar hefur boðað til samfélagsátaks dagana 15. og 20. júní við gróðursetningu trjáa, en félagið ætlar að gróðursetja um 50 þúsund trjáplöntur í skógræktarlandið í Reykholti í sumar. Biðlað er til almennings að taka þátt í átakinu. Frá þessu segir á vef Skessuhorns.
Í tilefni af evrópsku skógarvikunni sem fram fer í Varsjá 9.-13. október í haust hefur verið hleypt af stokkunum myndlistarsamkeppni fyrir 5-19 ára börn og unglinga. Keppninni er ætlað að vekja athygli ungs fólks á skógum Evrópu og þeim gæðum sem skógarnir veita.
Á tilraunanámskeiði í skógarleiðsögn sem haldið var í síðustu viku í Ólaskógi í Kjós fór Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, yfir hugmyndafræði sína um skógarleiðsögn og skógartengt útinám. Í undirbúningi er diplómanám í skógarleiðsögn og margvísleg önnur skógarfræðsla sem rekin verður undir heitinu Skógarskólinn.