Borgfirðingar hvattir til að hjálpa til við að gróðursetja 50 þúsund plöntur

Skógræktarfélag Borgarfjarðar hefur boðað til samfélagsátaks dagana 15. og 20. júní við gróðursetningu trjáa, en félagið ætlar að gróðursetja um 50 þúsund trjáplöntur í skógræktarlandið í Reykholti í sumar. Biðl­að er til almennings að taka þátt í átakinu.

Frá þessu segir á vef Skessuhorns og er vitnað í tilkynningu frá félaginu þar sem segir: „Miklar vonir eru bundnar  við að innan fárra ára muni einn fegursti skógur héraðsins og sá umfangsmesti vaxa upp í Reykholsdal til yndis og nota fyrir héraðs­menn og landsmenn alla,“ Enn fremur segir á vef Skessuhorns:

Víða um héraðið hefur Skógræktar­félag Borgarfjarðar tekið til hendinni að undanförnu. Til dæmis við grisjun í Daníelslundi í Stafholtstungum. Hluti af plöntunum sem nú verða settar niður í Reykholti er stafafura sem einmitt er vaxin upp af fræi sem safnað var í Daníelslundi eftir grisjun.

Nýverið var undirritað samkomulag skógræktarfélagsins við sveitarfélagið Borgarbyggð um umsjón með fólk­vanginum Einkunnum ofan við Borgarnes. „Vel má minnast þess að skógrækt í Einkunnum hófst um 1960 fyrir tilstuðlan félagsins Aspar sem var deild innan Skógræktarfélags Borgarfjarðar. Nú eru þar frjóir yndisreitir sem margir heimsækja til að njóta skjólsins í trjálundum borgfirsks skógar. Það hefur vorað vel fyrir gróður í Borgar­firði og má búast við að skógar dafni vel í sumar og bindi kolefni úr andrúmsloftinu sem nýtist til skjóls og yndis sem og í timbur til ýmissa nota.

Við viljum hvetja Borgfirðinga til að eiga með okkur ánægjulega samveru og taka þátt í sameiginlegri gróður­setningu og stuðla þannig að stækkun skóga,“ segir í tilkynningu frá Skógræktarfélagi Borgarfjarðar. Gróður­sett verður í Reykholtsskógi fimmtudaginn 15. júni og þriðjudaginn 20. júní klukkan 20:00 til 22:00 báða dag­ana. Mæting er við Höskuldargerði.