Gróðursett voru 70 rósakirsitré og ýmsar fleiri blómstrandi tegundir trjáa, runna og fjölæringa í ti…
Gróðursett voru 70 rósakirsitré og ýmsar fleiri blómstrandi tegundir trjáa, runna og fjölæringa í tilefni af því að í ár eru 70 ár liðin frá því að starfsemi gróðrarstöðvar hófst í Kjarnaskógi.

Gróðursetningardagur hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga

Stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga, starfsmenn, félagsfólk og fjölskyldur komu saman á laugardag í Kjarnaskógi á árlegum gróðursetningardegi félagsins. Gróðursett voru 70 rósakirsitré og ýmsar fleiri blómstrandi tegundir trjáa, runna og fjölæringa í tilefni af því að í ár eru 70 ár liðin frá því að starfsemi gróðrarstöðvar hófst í Kjarnaskógi.

Tímamótanna er minnst með ýmsum hætti í sumar og 19. ágúst verður skógardagur Norðurlands haldinn á Birkivelli, nýju grill- og leiksvæði sem þá verður formlega tekið í notkun í Kjarnaskógi. Þar hefur uppbygging staðið yfir undanfarin misseri og þar eru nú strandblakvellir, völundarhús, grillhús, margs konar leiktæki, borðtennisborð, hjólastólaróla og snyrtingar. Leitast hefur verið við að hafa gróður sem fjölbreytilegastan og trjátegundir sem flestar.

Sólskógar reka nú gróðrarstöðina í Kjarna sem Skógræktarfélag Eyfirðinga rak áður en félagið sér áfram um viðhald og uppbyggingu í Kjarnaskógi og Naustaborgum. Gott samstarf er þarna á milli og til dæmis gefa Sólskógar rósakirsitrén 70 sem nú eru komin í jörð skammt neðan við Birkivöll, á skjólgóðu svæði þar sem komið verður upp minigolfvelli. Þar má búast við að verði bleikt blómahaf á vorin sem verður æ tilkomumeira með hverju árinu sem líður. Auk rósakirsitrjánna voru gróðursettir heggir, blóðheggir, gullregn, sírenur, álmar, lyngrósir og fjölmargar fleiri tegundir sem prýða munu svæðið og blómstra á mismunandi tímum sumarsins.







Texti og myndir: Pétur Halldórsson