Edda Sigurdís Oddsdóttir, forstöðumaður Mógilsár, tekur við Broddadalsnýranu af Guðmundi Guðmundssyn…
Edda Sigurdís Oddsdóttir, forstöðumaður Mógilsár, tekur við Broddadalsnýranu af Guðmundi Guðmundssyni, forstöðumanni safna- og flokkunarfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Óvenjulega stórt viðarnýra af sjóreknu rússnesku lerkitré

Starfsmenn Mógilsár, rannsóknastöðvar skógræktar, fengu góða gesti 9. júní þegar Starfsmannafélag Náttúrufræðistofnunar gekk til skógar á Mógilsá. Að lokinni göngu afhenti Guðmundur Guðmundsson, forstöðumaður safna- og flokkunarfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Eddu S. Oddsdóttur, forstöðumanni Mógilsár, viðarnýra sem rak á fjörur Broddadalsáar í Strandasýslu vorið 2002.

Viðarnýra er æxlisvöxtur á trjám sem lýsir sér þannig að vöxtur verður óreglulegur og nánast stjórnlaus. Ekki er alltaf ljóst hvað það er sem veldur þessum vexti en sýking getur átt þátt í því. Flest vaxa slík nýru við rætur trjáa og uppgötvast oft ekki fyrr en tré fellur. Þau geta myndast á flestum trjátegundum og sjást stöku sinnum á íslensku birki en eru þó ekki algeng.

Það sem er óvenjulegt við viðarnýrað frá Broddadalsá er stærð þess. Mjög sjaldgæft er að svo stór viðarnýru reki á land, en árið 2002 mátti enn sjá leifar viðarnýra sem rak á land árið 1919. Það nýra var látið liggja á rekanum til að draga tré á fjörur en var þó ekki eins stórt og viðarnýrað frá 2002. Önnur þjóðtrú er sú að þau kæmu í veg fyrir að hús brynnu og voru þau því gjarnan geymd í eldhúsum.

Rekleiðir hafíss á norðurheimskautssvæðinu. Broddadalsnýrað hefur borist hingað til lands frá Rússlandi eins og mikið af þeim rekaviði sem rekur á Íslandsstrendur. Kort: Ólafur Eggertsson.

Broddadalsnýrað hefur myndast á stofni lerkitrés og er lengd bolsins um 3 metrar en viðarnýrað er 3,5 m að ummáli. Samkvæmt árhringjagreiningu kemur viðarnýrað úr skógum á vatnasviði Pechora-fljóts, rétt austan við Arkangelsk í Rússlandi og hefur verið fellt þar rétt eftir 1980. Líklega hefur ætlunin verið að fleyta bolnum með nýranu á Pechora-fljóti til næstu sögunarmyllu en það misfarist og bolnum skolað á haf út. Þaðan hefur nýrað borist með hafís og hafstraumum að ströndum Íslands og endað sína för við Broddadalsá í Kollafirði á Ströndum árið 2001. 

Broddadalsnýranu verður nú fundinn staður á Mógilsá, þar sem það verður til sýnis almenningi.

 

Starfsmenn Rannsóknastöðvar skógræktar Mógilsá og Náttúrufræðistofnunar Íslands
í sólskininu á Mógilsá daginn sem nýrað var afhent.

Texti: Edda Sigurdís Oddsdóttir
Myndir: Björn Traustason