Ágrædd sitkagrenitré í frægarði Skógræktarinnar á Tumastöðum í Fljótshlíð þroskast vel og þau fyrstu eru nú farin að mynda fræ. Enn er þess þó langt að bíða að fræframleiðslan komist í fullan gang en á meðan er fræjum safnað í skógarreitum af þeim kvæmum sem best hafa reynst. Gæði fræjanna aukast þegar grisjað er og bestu trén látin standa eftir.
Skoska ríkisstjórnin hefur ákveðið að stórauka framlög til nýskógræktar í nokkrum héruðum landsins. Tilkynnt hefur verið um nýtt 6,5 milljóna punda framlag sem standa á straum af nýskógrækt á 1.200 hekturum lands. Markmiðið er bæði að efla byggðir og binda koltvísýring.
Í eins árs átaksverkefni sem umhverfis- og auðlindaráðherra ýtti úr vör í gær á að leita eftir viðhorfi bænda til núverandi stuðningskerfis í skógrækt og hvort það megi betur laga að þörfum bænda í hefðbundnum búskap. Sjö milljónum króna verður varið til verkefnisins á næsta ári og hefur Skógræktinni verið falin umsjón þess.
Nýlega voru tveir góðir starfsmenn Skógræktarinnar á Vöglum í Fnjóskadal kvaddir eftir áratuga farsæl störf, hjónin Guðrún Jónsdóttir og Guðni Þorsteinn Arnþórsson.
Með vefjarækt hefur tekist að klóna fjölda trjátegunda, þar á meðal elstu rauðviðartrén eða risafururnar sem vaxa á vesturströnd Norður-Ameríku. Vonir standa til að breiða megi aftur út rauðviðarskógana þannig að þeir geti á ný fóstrað fjölbreytileg vistkerfi á landi, í vötnum og í sjó. Aukin skógarþekja á jörðinni er nauðsynleg til að mannkynið geti áfram þrifist.