Steini með fasta lykilinn sem Hlynur í Miðhúsum skar út í birki.
Steini með fasta lykilinn sem Hlynur í Miðhúsum skar út í birki.

Starfstíminn slagar samanlagt hátt í eina öld

Nýlega voru tveir góðir starfsmenn Skógræktarinnar á Vöglum í Fnjóskadal kvaddir eftir áratuga farsæl störf, hjónin Guðrún Jónsdóttir og Guðni Þorsteinn Arnþórsson.

Guðni Þorsteinn, eða Steini eins og hann er alltaf kallaður, er Fnjóskdælingur frá bænum Mörk, næsta bæ innan við Vagli. Hann hóf ungur störf hjá Skóg­ræktinni á Vöglum og náði um hálfrar aldar starfsaldri hjá stofnuninni þótt ekki væri hann fastráðinn starfsmaður í upp­hafi. Guðrún, alltaf kölluð Gunna, er Akureyringur að uppruna og starfaði alls hjá Skógræktinni í um 40 ár. Hún starfaði fyrst sem ráðskona og bjuggu þau Steini um tíma í starfsmannahúsi Skógræktarinnar, Furuvöllum, þar til þau reistu sér húsið Lerkihlíð í landi Vagla laust fyrir 1980. Gunna starfaði síðan lengi við gróðrarstöðina meðan hún var rekin á Vöglum og varð þar fljótlega lykilstarfsmaður enda lagði hún alúð og metnað í störf sín alla tíð.


Steini tók við sem verkstjóri á Vöglum af föðurbróður sínum, Þórhalli Guðnasyni, og var síðast aðstoðarskógarvörður í rúman áratug allt þar til hann hætti störfum nú á haustdögum. Steini er alþekktur fyrir lagni sína og útsjónarsemi, ekki síst við ýmis tæki og vélar enda leikur allt í höndunum á honum. Hefur hann fundið snjallar lausnir á ýmsum vandamálum og útbúið tæki sem enn eru í notkun, meðal annars við fræhreinsun. Og það má segja að öll fjölskyldan hafi lagt hönd á plóg hjá Skógræktinni á Vöglum því öll börn þeirra hjóna, fimm talsins, unnu sumarvinnu þar á unglingsárum sínum.

Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar samstarfsfólk Steina og Gunnu á Vöglum fyrr og nú kom saman á Furuvöllum í tilefni starfslokanna ásamt Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra og starfsfólki Skógræktarinnar á Akureyri. Þeim hjónum voru færðar góðar gjafir, eikarplanta sem ræktuð var upp á Mógilsá af fræi úr fjöllum Þýskalands og smíðisgripir úr smiðju Hlyns Halldórssonar, hagleiksmanns í Miðhúsum á Héraði. Gunna fékk blómvönd smíðaðan úr íslensku lerki og Steini nákvæma eftirlíkingu úr birki af föstum skrúflykli, hvort tveggja fallega áletrað.

Starfstími þeirra beggja slagar samanlagt hátt í eina öld. Skógræktin þakkar Gunnu og Steina innilega góð og fórnfús störf hjá Skógræktinni og óskar þeim alls hins besta á komandi árum.


Texti og myndir: Pétur Halldórsson