Skotar vilja meðal annars rækta gjöfula barrskóga til að auka framleiðslu skógargeirans en einnig er…
Skotar vilja meðal annars rækta gjöfula barrskóga til að auka framleiðslu skógargeirans en einnig eru uppi áætlanir um skóggræðslu með innlendum tegundum.

Eflir dreifbýlið og stuðlar að því að loftslagsmarkmið verði uppfyllt

Skoska ríkisstjórnin hefur ákveðið að stórauka framlög til nýskógræktar í nokkrum héruðum landsins. Tilkynnt hefur verið um nýtt 6,5 milljóna punda framlag sem standa á straum af nýskógrækt á 1.200 hekturum lands. Markmiðið er bæði að efla byggðir og binda koltvísýring.

Frá þessu er greint í breskum fjölmiðlum í dag. Þetta framlag er meira en tvöfalt hærra en lagt hefur verið fram á einum mánuði frá því að nýtt stuðningskerfi við skógrækt var innleitt í Skotlandi á síðasta ári, svokallað Forestry Grant Scheme.

Verkefnin sem ráðist verður í verða allt frá ræktun gjöfulla barrskóga í Perthshire, Argyll og hæðunum við landamærin að Englandi upp í stórt skóggræðsluverkefni með innlendum trjátegundum í Konydart. Byggðamálaráðherrann Fergus Ewing tilkynnti um þessi auknu framlög á sérstöku skógarmálaþingi ríkisstjórnarinnar sem nú var haldið öðru sinni í grennd við Aviemore. Þar sagði hann að rækta þyrfti fleiri tré til að tryggja áframhaldandi vöxt í skógargeiranum og þetta nýja framlag væri mikilvægt í því skyni. Opinber framlög væru þó aðeins hluti af menginu og það væri fagnaðarefni að sjá fjölgun nýrra skógræktaráætlana í landinu.

Ewing sagði ríkisstjórnina vilja lagfæra styrkjakerfi skógræktar svo afgreiðsla umsókna um sjálfbær skógræktarverkefni gæti gengið haraðar fyrir sig. Nýskógrækt myndi efla hlut skógargeirans í því að styrkja efnahag í dreifbýli Skotlands en um leið ýta undir að Skotar nái þeim markmiðum sem þeir hafa sett sér í loftslagsmálum.

Íslenskur texti og mynd: Pétur Halldórsson