Hlynur Gauti Sigurðsson, starfsmaður Skógræktarinnar, sést við rætur risafurutrés í Kaliforníu eins …
Hlynur Gauti Sigurðsson, starfsmaður Skógræktarinnar, sést við rætur risafurutrés í Kaliforníu eins og hann sé að búa sig undir að klifra upp stofninn sem er nokkurra metra sver. Mynd: Þröstur Eysteinsson.

Aðferð til að breiða aftur út besta erfðaefni fornra skóga

Með vefjarækt hefur tekist að klóna fjölda trjátegunda, þar á meðal elstu rauðviðar­trén eða risafururnar sem vaxa á vestur­strönd Norður-Ameríku. Vonir standa til að breiða megi aftur út rauðviðar­skóg­ana þannig að þeir geti á ný fóstrað fjöl­breytileg vistkerfi á landi, í vötnum og í sjó. Aukin skógarþekja á jörðinni er nauðsynleg til að mannkynið geti áfram þrifist.

Forystumaður í þessu starfi er skógar­bóndinn David Milarch sem kominn er af skógarbændum aftur í ættir. Hann er frumkvöðull í klónun ævagamalla trjáa og einn stofnenda velgerðarstofnunarinnar Archangel Ancient Tree Archive. Milarch hefur helgað líf sitt þeirri köllun að breiða út á ný besta erfðaefni elstu skóga heimsins. Hann hefur farið fyrir hópi fólks sem unnið hefur að því að fjölga yfir 90 tegundum, þar á meðal elstu rauðviðartrjám í heimi sem eru allt að þrjú þúsund ára gömul. Ævistarf Milarchs er rakið í bók sem kom út fyrir fáeinum árum. Bókin heitir The Man Who Planted Trees og er eftir Jim Robbins.

Um það leyti sem bókin kom út árið 2012 hélt David Milarch áhrifaríkan TED-fyrirlestur í San Jose í „Silíkon­dalnum“ í Kaliforníu. Fyrirlesturinn kallast The man who planted trees - pay it forward to the year 4012 og þar er vísað til þess að risafurur sem gróðursettar eru nú séu skuld greidd afkomendum okkar 3.000 ár fram í tím­ann. Fyrirlesturinn ætti ekki að láta nokkurn mann ósnortinn. Þar kemur meðal annars fram að Bandaríkja­menn hafi fellt 98 af hundraði allra náttúrlegra skóga sinna. Meðal annars þess vegna er að finna líflaus svæði í bæði í vötnum og sjó enda beint samhengi milli skóganna og lífkerfisins í ám, vötnum og hafinu. Nauðsyn­legt sé að endurreisa lífkerfi skóganna. Milarch spyr fólkið í salnum hvort það sé til í að gera þetta fyrir barnabörnin sín og uppsker klapp fyrir.

Rauðviðartré eins og til dæmis svo­kallaðar risafurur,Sequioadendron giganteum, verða gjarnan þúsund ára gamlar en eitt og eitt tré hefur náð miklu hærri aldri og eftir því sem David Milarch segir vita menn ekki hvernig þau fara að því að verða svo gömul. Hann leggur áherslu á að maðurinn hafi höggvið skógana án þess að vita nokkuð um eðli þeirra og virkni. Enn í dag sé margt á huldu um þessar merkilegu lífverur.

Þess má geta að Íslendingar eyddu með svipuðum hætti nær öllum skógi af landi sínu. Náttúrlegt íslenskt birki breiðist nú hraðast út af öllu skóglendi á Íslandi. Það er einkum að þakka verndar­starfi Skógræktarinnar sem staðið hefur í ríflega heila öld. Stofnunin var sett á fót til þess meðal annars að bjarga síðustu stóru birki­skóg­un­um sem eftir voru í landinu. Ræktun gjöfulli tegunda en birkis gefur hins vegar mun meira af sér en ræktun birkis og stórvaxnari tegundir veita mun meiri vistkerfisþjónustu, meira skjól, binda meira kolefni og þannig mætti áfram telja. Skógar auka líf í ám, vötnum og sjó og hafa áhrif langt út fyrir skógarmörkin.

Fyrirlesturinn „The man who planted trees“

Texti: Pétur Halldórsson