Gróðurlitlar auðnir blasa við víða á láglendi Íslands og þar binst lítill koltvísýringur. Sumir hafa talið að skógrækt á auðnum væri illmöguleg, en nú hefur verið sýnt fram á hið gagnstæða. Í tilraun á Markarfljótsaurum hefur komið í ljós að 23. ára alaskaösp bindur 9,3 tonn af koltvísýringi árlega á hverjum hektara. Forsendan fyrir þessari miklu bindingu er að lúpína vaxi með öspunum því hún bindur nitur úr andrúmsloftinu.
Heimsbyggðin hefur séð á bak þriðjungi ræktanlegs lands jarðarinnar á síðustu 40 árum fyrir sakir jarðvegsrofs og mengunar. Af þessu gæti leitt hörmungar í heiminum enda sífellt meiri þörf fyrir mat. Snúa verður baki við þeim landbúnaðaraðferðum sem stundaðar hafa verið frá því að tilbúinn áburður kom til sögunnar snemma á 20. öld og koma aftur á eðlilegri hringrás næringarefnanna. Annars getur farið illa fyrir mannkyninu. 5. desember er dagur jarðvegs hjá Sameinuðu þjóðunum.
Í nýrri frétt á vef norska regnskógasjóðsins er því haldið fram að skógyrkja (forest management) verði að byggjast á mannréttindum þegar mannkynið hverfur frá notkun jarðefnaeldsneytis.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að ýmis skref verði tekin hérlendis í loftslagsmálum. Ísland taki þátt í 40% markmiði Evrópulanda og ætli bæði að draga úr losun og auka bindingu. Átak verði gert til að skipta um orkugjafa í samgöngum og skipum og aukið fjármagn sett í landgræðslu, skógrækt og votlendi.
Jón Loftsson skógræktarstjóri fagnar sjötugsafmæli sínu í dag, 2. desember. Starfsfólk Skógræktar ríkisins óskar honum til hamingju með daginn með skemmtilegum myndum sem birtast í væntanlegu dagatali Skógræktar ríkisins 2016. Stef dagatalsins eru myndir sem sýna tré og skóga fyrr og nú.