Í skýrslu sem kynnt var á loftslagsráðstefnunni í París benda vísindamenn á það tjón sem jarðvegseyð…
Í skýrslu sem kynnt var á loftslagsráðstefnunni í París benda vísindamenn á það tjón sem jarðvegseyðing og mengun í heiminum veldur. Hnignun jarðvegsauðlindarinnar sé mikið áhyggjuefni í heimi sem þurfi sífellt meiri mat. Mynd: Alamy

Uppblástur og mengun ógnar mannkyninu. 5. desember er dagur jarðvegs hjá SÞ

Heimsbyggðin hefur séð á bak þriðjungi ræktanlegs lands jarðarinnar á síðustu 40 árum fyrir sakir jarðvegsrofs og mengunar. Af þessu gæti leitt hörmungar í heiminum enda sífellt meiri þörf fyrir mat. Snúa verður baki við þeim landbúnaðaraðferðum sem stundaðar hafa verið frá því að tilbúinn áburður kom til sögunnar snemma á 20. öld og koma aftur á eðlilegri hringrás næringarefnanna. Annars getur farið illa fyrir mannkyninu. 5. desember er dagur jarðvegs hjá Sameinuðu þjóðunum.

Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var á vegum Grantham Centre for Sustainable Futures, stofnunar við Sheffield-háskóla á Englandi sem sinnir sjálfbærnimálum. Kafað var ofan í ýmis gögn og rannsóknarniðurstöður frá undanförnum áratug til að meta ástand ræktarlands í heiminum. Í ljós kom að eyðingin er óskapleg. Um 33 prósent ræktanlegs lands í heiminum hafa horfið síðustu fjörutíu árin og vísindamennirnir óttast að mannkynið sé að nálgast þau mörk að ekki verði aftur snúið. Nauðsynlegt sé að grípa þegar í stað til aðgerða og breyta þeim aðferðum sem notaðar eru í landbúnaði um allan heim.

Spurt er hvort hverfa verði að öllu leyti til lífrænnar ræktunar í landbúnaði eða hvort mögulegt sé að stunda hefðbundinn landbúnað án þess að ganga á náttúruna. Vísindamennirnir í Sheffield benda á að í tvíhliða umræðunni um lífrænt eða ekki lífrænt sé litið fram hjá þriðja möguleikanum sem fyrir hendi er. Með því að taka frá bletti á landbúnaðarlandi fyrir búsvæði villtra dýra og jurta megi efla stofna til dæmis býflugna, fiðrilda og plantna án þess að það komi niður á uppskeru eða afrakstri býlanna.


Í því sem kallað er hefðbundinn landbúnaður á okkar dögum eru akrar plægðir æ ofan í æ og mikið notað af tilbúnum áburði. Notkun lands er einhæf og síendurtekin. Þetta veldur því að smám saman rýrnar jarðvegurinn og jarðvegur rofnar hundrað sinnum hraðar en hann myndast, samkvæmt niðurstöðum vísindamannanna. Það tekur um 500 ár að mynda einungis 2,5 cm þykkt jarðvegslag við venjulegar aðstæður í slíkum landbúnaði.

Oliver Milman, blaðamaður breska blaðsins The Guardian ræddi þessi mál við Duncan Cameron, prófessor í jurta- og jarðvegslíffræði við Sheffield-háskóla, sem segir ekki óeðlilegt að fólki detti í hug hamfarirnar sem urðu í Norður-Ameríku á fjórða áratug síðustu aldar og kallaðar voru Dust Bowl. Á þeirri leið sé mannkynið einmitt núna verði ekkert að gert. Á endanum verði jarðvegurinn ekkert annað en sandur.

Skýrsla um rannsóknina var kynnt í vikunni á loftslagsráðstefnunni sem nú stendur yfir í París. Höfundar hennar vara við því að sú ákafa sókn í landið sem nútíma landbúnaðarhættir bera með sér sé ósjálfbær. Framleiðsla og notkun tilbúins áburðar taki til dæmis um tvö prósent af allri þeirri orku sem notuð er í heiminum. Auk þess stuðli þessar ósjálfbæru aðferðir að eyðingu heilbrigðra jarðvegsvistkerfa um allan heim.

Lausn vandans segja vísindamennirnir að felist í því að snúa að hluta til aftur til þeirra ræktunaraðferða sem notaðar voru fyrir iðnbyltingu. Með slíkum aðferðum megi viðhalda heilbrigðum jarðvegi og nýta ræktarlönd með sjálfbærum hætti. Það sé hins vegar ekki hægt með þeirri áburðarnotkun sem stunduð er nú.


Notkun lífræns áburðar frá dýrum og mönnum viðheldur eðlilegri hringrás næringarefnanna í umhverfinu. Með nútíma ræktunaraðferðum eru efni stöðugt tekin út úr kerfinu en ekki koma í staðinn nema þau fáu efni sem er að finna í tilbúnum áburði. Framleiðsla tilbúins áburðar er mjög orkufrek og mengandi og sömuleiðis flutningur áburðarins og dreifing hans á akra og tún. Þegar tilbúinn áburður kom til sögunnar snemma á tuttugustu öld lokaðist eðlileg hringrás næringarefnanna í landbúnaði. Endurnýting lífræns niturs, forsfórs og annarra efna stöðvaðist. Í staðinn enda efnin annars staðar þar sem þau nýtast ekki fæðuframleiðslunni, til dæmis í sjónum með skólpi. Eftir því sem jarðvegurinn rýrnar verður hann líka gegndræpari og regnvatn nýtist síður. Það ýtir undir enn meira rof og rask vistkerfa.

Duncan Cameron segir nauðsynlegt að hvíla landbúnaðarland í langan tíma til að byggja upp kolefnisforða í jarðvegi þannig að hann verði stöðugur. Við höfum nú þegar misst mikið land sem notað er til beitar við kjöt- og mjólkurframleiðslu. Í stað þess að hólfa landbúnaðarlönd af þurfum við að koma á breytilegri nýtingu þess, segir hann, þannig að notkunin dreifist á stærri svæði og minna land sé í notkun í einu. Þannig fái öll svæði ráðrúm inn á milli til að jafna sig.

Að auki segja vísindamennirnir von til þess að líftækni geti leyst landbúnaðinn úr fjötrum þess gerviheims sem notkun tilbúins áburðar sé. Með slíkri tækni sé mögulegt að koma aftur í gang eðlilegu samspili efna og örvera í jarðveginum. Það verði ekki auðvelt að umbylta öllum landbúnaði í heiminum en ógnvænlegt sé að hugsa út í afleiðingarnar verði slíkt ekki gert.

Cameron tekur fram í lok viðtalsins við The Guardian að ekki megi skella allri skuldinni á bændur. Þvert á móti verði að hjálpa bændum að bregðast við vandanum. Ekki dugi að skipa þeim einfaldlega að taka upp nýjan hátt. Tæknin sé til staðar. Það eina sem vanti sé pólitískur vilji til að gera kleift að leysa þennan vanda.

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson