Nýlega sendu skógarbændur á Austurlandi 350 jólatré til Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Félagið hefur átt bágt með að anna eftirspurn eftir íslenskum jólatrjám. Jólatrjáarækt hjá skógarbændum fer smám saman vaxandi og búast má við því að hlutdeild skógarbænda á jólatrjáamarkaðnum fari vaxandi á komandi árum. En til þess að íslensku trén geti náð stærri hluta kökunnar þurfa neytendur að vera ánægðir með vöruna og þjónustuna á sölustöðum. Ýmis verkefni blasa við jólatrjáabændum í desember en undirbúningur fyrri mánaða er líka mjög mikilvægur.
Af þeim 40.000 jólatrjám sem Íslendingar kaupa á ári, eru aðeins 10.000 íslensk. Hin eru flutt inn. Þetta kom fram í góðri umfjöllun í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöld, 8. desember. Þar var annars vegar fjallað um sölu jólatrjáa og þá nýbreytni Skógræktarfélags Reykjavíkur að hvetja fólk til að fá sér öðruvísi jólatré, svokölluð einstök tré, sem eru óhefðbundin í útliti en þó falleg á sinn hátt. Einnig er rætt um vöxtinn í íslenskum skógum undanfarna áratugi og vaxandi verkefni við grisjun.
Í veðurstöðinni á Hallormsstað mældist mesta hviðan 17 metrar á sekúndu í ofviðrinu sem gekk yfir í gærkvöld og í nótt. Nokkru utan við Hallormsstaðaskóg, á Hallormsstaðahálsi, mældist mesta hviðan hins vegar 72,6 m/sek. Á Höfða, skammt innan við Egilsstaði, hlustaði heimafólk á óveðrið uppi yfir en stóð rólegt í skjóli asparskógarins. Svipaða sögu er að segja frá Selfossi þar sem trjágróður hefur vaxið upp undanfarna áratugi og dregur merkjanlega úr vindi í bænum. Ekki er ólíklegt að trjágróður hafi gert að verkum að tjón í ofviðrinu varð minna en ella hefði orðið.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið  óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um timbur og timburvörur. Frumvarpið er til innleiðingar á nokkrum ESB reglugerðum er fjalla um markaðssetningu timburs og timburvara á innri markaði EES-svæðisins. Markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir viðskipti með ólöglega höggvinn við og að timbur og timburvörur úr ólöglega höggnum viði sé sett á markað hér á landi.
Í morgun komu skólabörn frá Hvanneyri í Skorradal til að finna tré fyrir skólann sinn. Þetta hafa grunnskólabörnin gert undanfarin ár en nú bættust leikskólabörnin við og voru fljót að finna tvö tré til að saga. Skógarvörðurinn á Vesturlandi tók á móti þeim í skóginum á Stóru-Drageyri.