Árlega flytja Íslendingar inn 45.000 jólatré sem ræktuð eru með mengandi hætti á ökrum í Danmörku. Áætla má að kolefnisfótspor hvers trés sé 3,6 kíló og allra innfluttu trjánna 162 tonn CO2 á ári. Auk þess er alltaf hætta á að með innfluttu trjánum berist meindýr eða sjúkdómar sem valdið gætu usla í skógrækt á Íslandi. Langtímamarkmið Íslendinga ætti að vera að hætta með öllu innflutningi lifandi jólatrjáa.
Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu.  Til úthlutunar verða um fjórar milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 25. janúar 2016.
Í dag kom út sérblað með DV helgað jólatrjám. Þar er fjallað um kynbótastarf það sem unnið er að hjá Skógrækt ríkisins með því markmiði að rækta fjallaþin sem keppt gæti við innfluttan nordmannsþin sem jólatré fyrir Íslendinga. Sagt er frá jólatrjáaskógunum á Laugalandi á Þelamörk og í Heiðmörk ásamt fleiru.
Björn Helgi Barkarson, sérfræðingur á skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, skrifar grein í Bændablaðið um hvernig Íslendingar geti lagt sitt að mörkum í baráttunni gegn landhnignun í heiminum. Hann segir vanta stefnu um endurheimt landgæða á Íslandi en nú sé verið að endurskoða lög um bæði landgræðslu og skógrækt.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað Þröst Eysteinsson í embætti skógræktarstjóra til fimm ára. Þröstur hefur frá árinu 2003 starfað sem sviðsstjóri þjóðskóganna hjá Skógrækt ríkisins.