Flýta má fyrir skóggræðslu á eyðisöndum með því að sá lúpínu um leið og trjáplöntur eru gróðursettar…
Flýta má fyrir skóggræðslu á eyðisöndum með því að sá lúpínu um leið og trjáplöntur eru gróðursettar. Myndin er tekin á Hólasandi sumarið 2015.

Minningarsjóður Hjálmars og Else auglýsir eftir umsóknum

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir lausa til umsóknar rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða um fjórar milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 25. janúar 2016.

Umsóknareyðublað er að finna á vefjum Landgræðslu ríkisins (land.is), Skógræktar ríkisins (skogur.is) og Skógræktarfélags Íslands (skog.is). Umsókn ásamt fylgigögnum skal skila í einu pappírseintaki og á tölvutæku formi. Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá.

Hjálmar R. Bárðarson, fv. siglingamálastjóri, sem lést í apríl árið 2009, arfleiddi 6 stofnanir og félagasamtök að öllum eigum sínum. Erfingjarnir eru Ljósmyndadeild Þjóðminjasafns Íslands, Sjóminjasafnið Víkin í Reykjavík, Byggðasafn Vestfjarða og Fuglaverndarfélag Íslands, sem hvert um sig fékk 10% arfshlut, og svo Landgræðsla ríkisins og Landgræðslusjóður sem hvort um sig fékk 30%. Í erfðaskránni koma fram óskir hins látna um ráðstöfun hvers erfingja á arfi sínum. Landgræðslusjóður skyldi verja sínum arfshlut til landgræðsluskógræktar, t.d. þar sem lúpína hefur gert land vænlegt til skógræktar. Landgræðsla ríkisins skyldi verja sínum hlut til aukinnar fræræktar lúpínu og notkunar hennar til uppgræðslu og til að gera land vænlegt til frekari ræktunar nytjagróðurs.

Landgræðslusjóður og Landgræðsla ríkisins ákváðu á sínum tíma að verja hluta arfsins til stofnunar sjóðs sem hefði að markmiði að styrkja rannsóknarverkefni í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Sjóðurinn fékk í stofnfé 20 milljónir króna frá hvorum stofnanda og á að starfa í 10 ár skv. ákvæði í skipulagsskrá. Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar. Sjóðurinn fékk nafnið Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson.

Nánari upplýsingar gefur formaður sjóðsins, Guðbrandur Bynjúlfsson í síma 844-0429. Netfang: buvangur@emax.is
Umsóknum skal skila til: Landgræðslusjóðs, Þórunnartúni 6, 105 Reykjavík. Skrifa skal skýrt á umslag: „Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson“.

Mynd: Pétur Halldórsson