Meðal annars fjallað um kynbætur á fjallaþin til jólatrjáaræktunar

Í dag kom út sérblað með DV helgað jólatrjám. Þar er fjallað um kynbótastarf það sem unnið er að hjá Skógrækt ríkisins með því markmiði að rækta fjallaþin sem keppt gæti við innfluttan nordmannsþin sem jólatré fyrir Íslendinga. Sagt er frá jólatrjáaskógunum á Laugalandi á Þelamörk og í Heiðmörk ásamt fleiru.

Greinin um kynbótastarfið á fjallaþin er á þessa leið:

Kynbætt jólatré

Úrvalsyrki af fjallaþin gæti leyst innfluttan nordmannsþin af hólmi

Til mikils er að vinna að öll jólatré sem standa á íslenskum heimilum um jól verði á endanum ræktuð innanlands. Mest selda lifandi jólatréð hér á landi er innfluttur nordmannsþinur sem ræktaður er á ökrum í Danmörku. Þrátt fyrir að mikið sé notað af bæði tilbúnum áburði og varnarefnum við ræktunina geta innfluttu trén borið bæði plöntusjúkdóma og meindýr til landsins. Nú er unnið að kynbótum á fjallaþin sem gæti í fyllingu tímans leyst innfluttan nordmannsþin af hólmi.

Fjallaþinur er norður-amerísk trjátegund og vex til fjalla víða í vesturhluta álfunnar. Tegundin er allbreytileg, bæði að lit og vaxtarlagi, en falleg tré af þessari tegund gefa nordmannsþin ekkert eftir sem jólatré. Vonast er til þess að kynbætur fjallaþins gefi hentugt afbrigði til jólatrjáaframleiðslu hér á landi. Brynjar Skúlason, skógfræðingur og doktorsnemi í trjákynbótum, stýrir þessu starfi og á liðnu vori kom danskur sérfræðingur til landsins, Thomas Kunø, til að græða sprota úrvalstrjáa á grunnstofna eða fósturtré í Fræhöllinni í Vaglaskógi þar sem kynbótastarfið fer fram. Með víxlfrjóvgun þessara trjáa verður framleitt fræ til plöntuframleiðslu í gróðrarstöðvum og ræktunar fyrsta flokks jólatrjáa í skógum vítt og breitt um landið. Ef vel gengur gætu ágræddu trén farið að gefa fræ innan fimm ára og fyrstu jólatrén komið á markað rúmum áratug síðar.

"> Hér sjást fallegir fjallaþinir í jólatrjáasölu Sólskóga í Kjarnaskógi. Þinirnir eru úr Hallormsstaðaskógi. Mynd: Pétur Halldórsson.

Fjallaþinur ilmar vel og er fallegur á litinn en heldur líka barrinu lengi. Allt eru þetta eftirsóttir kostir jólatrjáa. Sömuleiðis er fjallaþinur hæfilega stinnur og heldur því jólaskrautinu án þess að greinar sligist undan því. Tegundin myndi því áreiðanlega slá í gegn hjá íslenskum neytendum ef framboðið ykist.

Vor- og haustfrost sem gjarnan gerir á Íslandi eru helsta hindrun þess að jólatré séu ræktuð hér á ökrum. Þess vegna feta menn sig nú meira í þá átt rækta jólatré í skjóli eldri trjáa, til dæmis í nýlega grisjuðum skógum þar sem þó er næg birta á skógarbotninum til að ungviði geti vaxið upp. Við slíkar aðstæður er mun minni hætta á skemmdum af vor- og haustfrostum, einkum á flatlendi.

Mikið umhverfisálag fylgir bæði gervijólatrjám og innfluttum lifandi trjám. Innfluttu trén geta líka ógnað kynbótastarfinu á fjallaþin. Með þeim gætu borist meindýr og sjúkdómar sem sett gætu strik í reikninginn. Því ber að fara varlega með innflutt tré og gæta þess að þeim sé fargað á réttan hátt þannig að leifar þeirra berist ekki út í náttúruna.