Ung stafafura í Laugalandsskógi á Þelamörk. Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréð og getur vel l…
Ung stafafura í Laugalandsskógi á Þelamörk. Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréð og getur vel leyst af hólmi innfluttan nordmannsþin enda barrheldin, ilmar vel og er falleg. Mynd: Pétur Halldórsson.

Losun vegna eins nordmannsþins um 3,6 kíló CO2

Koltvísýringslosun eða kolefnisfótspor eru títtnefnd hugtök þessa dagana. Í kjölfar loftslagsráðstefnunnar í París sem lauk betur en margir þorðu að vona má búast við því að mælistika gróðurhúsalofts verði lögð á hvaðeina sem mannfólkið fæst við og reynt að draga úr losuninni sem víðast. Þessa dagana velta Íslendingar vöngum yfir því hvers konar jólatré skuli kaupa í stofuna, lifandi eða gervi, innlent eða innflutt, þin eða furu, blágreni eða rauðgreni og svo framvegis. Því er ekki úr vegi að skoða kolefnisfótspor jólatrjáa og fyrir okkur verða innflutt lifandi tré sem eru algengust á markaðnum.

Árlega flytja Íslendingar inn um 45.000 jólatré sem ræktuð eru á ökrum í Danmörku. Þetta er að langmestu leyti nordmannsþinur, Abies nordmanniana, kenndur við finnska nítjándu aldar grasafræðinginn Alexander von Nordmann sem var forstöðumaður grasagarðsins í Odessa við Svartahaf.

Nordmannsþinur er fallegt jólatré, hefur eftirsóknarverðan lit og heldur barrinu vel. Á ökrunum er auðvelt að klippa hann til þannig að hann nái æskilegu vaxtarlagi og þéttleika jólatrés. En við ræktunina er notað mikið af eiturefnum og tilbúnum áburði. Meðal annars eru notuð illgresislyf eins og Roundup en vélvæðing er líka mikil þannig að umhverfisáhrifin eru töluverð. Síðan þarf að flytja trén á bílum í skip og sigla með þau til Íslands.

Kolefnisfótspor 10 kílóa nordmannsþins

Vefurinn skogur.is ráðfærði sig um kolefnisfótspor innfluttra jólatrjáa við þau Brynhildi Bjarnadóttur, skógvistfræðing og lektor við Háskólann á Akureyri, og Sigurð Inga Friðleifsson, umhverfisfræðing og forstöðumann Orkuseturs. Lausleg athugun leiddi í ljós að einn nordmannsþinur væri um tíu kíló að þyngd að meðaltali. Samkvæmt útreikningum Sigurðar er koltvísýringslosun vegna tíu kílóa jólatrés frá Danmörku 3,6 kíló CO2 þegar tréð er komið á hafnarbakka á Íslandi. Með öðrum orðum má segja að þetta sé það kolefnisfótspor sem innflutt tré hefur umfram íslenskt. Innlendu trén eru oftast tekin í nálægum skógum og flutningur á þeim óverulegur ef nokkur umfram innanlandsflutning innfluttu trjánna. Þessi samanburður ætti því að heita sanngjarn.


Ef við margföldum þetta áætlaða kolefnisfótspor eins innflutts trés með fjölda innfluttra, 45.000 trjáa, fáum við út að kolefnisfótspor innfluttra jólatrjáa nemi samtals 162 tonnum af koltvísýringi. Til þess að mæta þessum útblæstri gætu Íslendingar sett sér það langtímamarkmið að hætta innflutningi jólatrjáa og rækta öll jólatré innanlands. Það væri á margvíslegan hátt jákvæð aðgerð, bæði fyrir umhverfið og þjóðarhag Íslendinga. Fyrst og fremst myndi nettó koltvísýringsútblástur vegna jólatrjáa hverfa enda væru ávallt miklu fleiri tré ræktuð en þau sem uppskorin eru sem jólatré. Tekjurnar af jólatrjáasölunni myndu efla fjárhag skógarbænda, skógræktarfélaga og annarra skógræktenda og auka möguleika þeirra á að eflast í skógrækt sinni. Neytendur fengju tré sem væru laus við varnarefni hvers konar og hefðu verið ræktuð með sáralitlum tilbúnum áburði auk þess sem hættan á innflutningi óæskilegra smádýra og hættulegra plöntusjúkdóma með jólatrjám væri úr sögunni.

Marka þarf stefnu

Vert væri að marka skýra stefnu um jólatrjáarækt hérlendis. Um leið þyrfti að skipuleggja ræktunina betur og þróunarstarf í greininni. Jólatrjáarækt er ekki hluti af þeim verkefnum sem falla undir skyldur Landshlutaverkefna í skógrækt eins og málum er háttað nú. Íhuga mætti að koma jólatrjáarækt inn í þessi verkefni sem hliðarbúgrein nytjaskógræktarinnar. Jólatré skila bændunum arði eftir rúman áratug frá gróðursetningu og yrðu viðbót við aðrar nytjar skógarins án þess að koma niður á uppskeru timburs.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson