Á Hálsmelum í Fnjóskadal er ríflega tuttugu ára gamall lerkiskógur þar sem áður var þurr og gróðurla…
Á Hálsmelum í Fnjóskadal er ríflega tuttugu ára gamall lerkiskógur þar sem áður var þurr og gróðurlaus eyðimörk. Í haust gaf skógurinn fyrsta flokks girðingarstaura og á komandi árum verður hægt að sækja í hann grisjunarvið og að lokum boli til flettingar í borð og planka. Þetta er dæmi um vel heppnaða endurheimt landgæða. Á myndinni er Rúnar Ísleifsson, skógarvörður á Vöglum (t.h.) ásamt skógarhöggsmönnunum Teiti og Valgeiri Davíðssonum. Mynd: Pétur Halldórsson

Heildarstefnumörkun um endurheimt landgæða skortir hérlendis

Margt er nú rætt í kjölfar þeirra gleðitíðinda sem urðu í París á sunnudag þegar ríki heims samþykktu nýjan sáttmála um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum fram til ársins 2030. Hvernig á að bregðast við og mæta þeim kröfum sem samningurinn felur í sér? En nýlega var líka haldinn annar mikilvægur fundur sem snertir ekki óskyld málefni, nefnilega eyðimerkurmyndun og varnir gegn henni.

Í Bændablaðinu sem kemur út á morgun birtist grein eftir Björn Helga Barkarson, sérfræðing á skrifstofu landgæða í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Björn ræðir hvernig Íslendingar geti lagt sitt að mörkum í baráttunni gegn landhnignun í heiminum, meðal annars með skógrækt. Fyrir árið 2030 á að græða upp að minnsta kosti jafnmikið land og eyðist á hverju ári samkvæmt nýsamþykktum sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með öðrum orðum á að ná því sem Björn kallar landhnignunarhlutleysi á næstu fimmtán árum.

Grein Björns er á þessa leið:

Hugleiðingar eftir aðildarríkjafund eyðimerkur­samnings Sameinuðu þjóðanna


Þann 12.-24. október sl. fór fram aðildarríkjaþing samnings Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn eyðimerkurmyndun eða „eyðimerkursamninginn“ (UN-CCD) í Ankara í Tyrklandi.

Fyrir Íslands hönd sóttu fundinn undirritaður, sem er tengiliður Íslands við samninginn, Benedikt Höskuldsson, deildarstjóri auðlinda- og umhverfismála í utanríkisráðuneytinu, auk þess sem Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mætti til þingsins og tók þátt í hringborðsumræðum. Hafdís Hanna Ægisdóttir, skólastjóri Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sat þingið að hluta sem fulltrúi skólans. Eyðimerkursamningur Sþ er einn þeirra þriggja mikilvægu samninga Sameinuðu þjóðanna er taka á umhverfismálum heimsins og urðu til í kjölfar Rio-fundarins um sjálfbæra þróun árið 1992. Hinir eru rammasamningurinn um aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum eða loftslagssamningurinn (UN-FCCC) og samningurinn um líffræðilega fjölbreytni (UN-CBD).

Á þinginu var m.a. rætt um tengsl samningsins við nýsamþykkt  heimsmarkmið um sjálfbæra þróun  en eitt heimsmarkmiðanna er tileinkað verndun, endurheimt og sjálfbærri nýtingu lands og stöðvun landeyðingar, markmið 15. Markmiðið kveður t.a.m. á um að fyrir árið 2030 eigi að græða upp að minnsta kosti jafn mikið land og eyðist á hverju ári, e.k. landhnignunarhlutleysi. Þetta er metnaðarfullt markmið því árið 2030 er handan við hornið og gríðarleg vandamál tengd landhnignun á heimsvísu, árlega eyðast um 12 milljón hektarar lands. Samþykkt var á þinginu að hver og ein þjóð geti, að eigin frumkvæði, sett sér markmið um landhnignunarhlutleysi innan eigin ríkis. Markmiðið hefur því ekki alþjóðlegar skuldbindingar í för með sér.

Á þinginu var fjallað um tengsl stóru samninganna þriggja og hvernig megi tengja áherslumál þeirra, landeyðingu, loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni, betur saman. Þetta þekkjum við Íslendingar vel því við höfum um langa hríð unnið að því að auka og efla líffræðilega fjölbreytni með uppgræðslu örfoka lands og með auknum gróðri aukið bindingu kolefnis úr andrúmslofti. Þar er því ágætis dæmi um hvernig markmið þessara þriggja samninga geta unnið saman. Fátt stuðlar að meiri losun kolefnis út í andrúmsloftið en landhnignun og að sama skapi hefur landhnignun verulega neikvæð áhrif á líffræðilega fjölbreytni. Eins hafa loftslagsbreytingar nú þegar aukið hnignun lands og eyðimerkurmyndun. Landnýting er því hluti af vandamálinu og lausninni.

Alþjóðlegur samningur eins og eyðimerkursamningur Sþ er þannig í eðli sínu að breytingar eru yfirleitt fremur hægar þar sem aðilarþjóðir hafa æði mikið um það að segja hvernig samningurinn er útfærður. Þetta gerir það að verkum að sumir eru fullir óþreyju að málum vindi fram, aðrir leggja áherslu á að standa vörð um fullveldi sitt og ákvörðunarvald til að nýta auðlindir sínar. Það eru þekkt stef í alþjóðasamningum.

Það er hins vegar svo að frá stofnun samningsins hefur margt breyst og mátti heyra á fulltrúum þjóða að æ fleiri geri sér grein fyrir áskorunum og afleiðingum landhnignunar og láti að sér kveða. Þetta á ekki síst við félagasamtök hvers konar, samfélög lítil og stór og nú hafa einkaaðilar margir hverjir séð tækifæri í að endurheimta land. Vissulega sumir með annarlegar hvatir að baki s.s. að ná yfirráðum yfir landi (e: land grabbing) en aðrir með heilbrigðari viðskiptahætti að leiðarljósi. Í þessu geta falist mikil tækifæri. Eins eru margir þeirrar skoðunar að samþykkt heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun og möguleg áhrif nýs samnings um loftslagsmál muni hreyfa við málum er snerta land. 

En hvað er þá að gerast?

Í öllum heimsálfum eru fjölmörg verkefni í gangi sem snúa að endurheimt landgæða. Nálgun að þeim má að mestu skipta í þrennt: a) endurheimt með e.k. ræktun í huga t.d. akuryrkju, b) endurheimt með blandaðan tilgang t.d. beit og ræktun oftast með trjá- eða skógrækt í bland, c) endurheimt náttúrlegra vistkerfa. Eins færist í vöxt að endurheimtarverkefni séu skipulögð m.t.t. landslags og/eða vatnasviða og þá oft með fjölþætta þjónustu vistkerfa (e: ecosystem services) sem markmið. Meðal markmiða eru t.d. aukið þanþol vistkerfa og samfélaga gagnvart umhverfisbreytingum. Þetta má telja afar mikilvæg markmið í ljósi t.d. loftslagsbreytinga. Það er hins vegar ekki nóg að endurheimta land því nýting þarf að vera sjálfbær, hver sem hún er, og það vmeginsjónarmið er rauður þráður í gegnum allt sem fjallað er um varðandi eyðimerkursamninginn. Það segir sig sennilega sjálft.

Algengt stef á stórum fundi eins og aðildarríkjaþingi alþjóðasamnings er að stefnur stjórnvalda ríkis gangi oft í berhögg hver við aðra. Stefna um landbúnað eða jarðefna- og orkuvinnslu stangast á við stefnu um sjálfbæra auðlindanýtingu og stofnanir vinna hver í sínu „sílói“ eins og það er kallað. Þetta er því alþjóðlegt viðfangsefni og áskorunin er að samþætta, nú eða sameina, stefnur og stofnanir.  Mikil áhersla er á það innan eyðimerkursamningsins að endurheimtarverkefni séu unnin af og að frumkvæði þeirra sem hafa umsjón með landinu, hvort sem sú umsjón er í formi eignarhalds eða óformlegri réttinda. Það var gaman að heyra hversu mörg verkefni byggja á þessari þátttökunálgun og fela jafnframt í sér nýsköpun, nýjar leiðir í landnotkun, sem tryggja þeim sem landið nýta betri afkomu.

Staða Íslands

Ísland fellur ekki innan þess svæðis sem skilgreint er sem viðfangsefni samningsins en það eru þurrustu svæði jarðar. Við berum því litlar skyldur gagnvart honum. Hins vegar er ljóst að reynsla okkar af mikilli jarðvegseyðingu og auðnamyndun er að mörgu leyti einstök meðal landa utan eyðimerkursvæða og vekur  því ætíð athygli þegar henni er lýst í orði og ekki síst myndum. Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfar hér á landi á einmitt rætur sínar að rekja til öflugs starfs hér á landi við varnir gegn gróður- og jarðvegseyðingu og endurheimt landgæða og er skólinn vettvangur fræðslu og skoðanaskipta – þvert á þjóðir og heimsálfur. Skólinn vekur hvarvetna eftirtekt og fær góðan vitnisburð frá þeim sem hann hafa sótt og síðan haldið aftur heim til starfa á þessum vettvangi.

Það má fullyrða að við getum lært ýmislegt af þeim þjóðum sem mest hafa lagt á sig síðustu ár í að þróa skipulagningu og aðferðir við endurheimt. Hér á landi skortir t.d. heildar stefnumörkun varðandi endurheimt landgæða. Í gildi eru lög um landgræðslu frá 1965 og um skógrækt frá 1955 sem bæði þarfnast endurnýjunar og stendur sú vinna nú yfir í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Engin landsáætlun um endurheimt landgæða er í gildi eða hefur stoð í lögum. Hins vegar má sjá nýja nálgun við endurheimt vistkerfa í Hekluskógum þar sem tekið er fyrir stórt landsvæði með markmið um endurheimt birkiskóga og aukið þol gegn náttúruvá (eldgosum og veðrum) og margvíslega aðra vistkerfaþjónustu. Slíkt verkefni kemur öllu samfélaginu til góða, til framtíðar, og ætti að skoða þessa nálgun víðar á landinu.

Íslendingar geta því lagst á árar með öðrum þjóðum, uppfyllt markmið um landhnignunarhlutleysi og sett sér síðan enn metnaðarfyllri markmið, vinna áætlun um hvernig markmiðum skuli náð og virkja þjóðina til að vinna að þeim markmiðum.  

Björn Helgi Barkarson,
sérfræðingur á skrifstofu
landgæða, umhverfis- og
auðlindaráðuneytinu