Þar sem áður var aðeins snauður, svartur sandur vex nú alaskaösp sem bindur gríðarmikið magn kolefni…
Þar sem áður var aðeins snauður, svartur sandur vex nú alaskaösp sem bindur gríðarmikið magn kolefnis á hverju ári. Með hjálp alaskalúpínu má nota hina víðfeðmu sanda Suðurlands til kolefnisbindingar upp í alþjóðleg markmið Íslendinga í loftslagsmálum.

Árleg binding 9,3 tonn á hektara á Markarfljótsaurum og fer vaxandi

Gróðurlitlar auðnir blasa við víða á láglendi Íslands og þar binst lítill koltvísýringur. Sumir hafa talið að skógrækt á auðnum væri illmöguleg, en nú hefur verið sýnt fram á hið gagnstæða. Í tilraun á Markarfljótsaurum hefur komið í ljós að 23. ára alaskaösp bindur 9,3 tonn af koltvísýringi árlega á hverjum hektara. Forsendan fyrir þessari miklu bindingu er að lúpína vaxi með öspunum því hún bindur nitur úr andrúmsloftinu.

Varla fer framhjá nokkrum manni að nú fundar heimurinn um loftslagsmál. Vegna Parísarráðstefnunnar fer nú fram lífleg umræða hér á landi eins og annars staðar. Umræðan hér beinist í ýmsar áttir. Fáir draga nú orðið í efa að aukið magn ákveðinna lofttegunda, og þá einkum koltvíoxíðs, eigi sök á hitnun lofthjúps jarðar. Augljóslega þarf því að vinna að því að koma í veg fyrir áframhaldandi aukningu þessara svonefndu gróðurhúsalofttegunda.


Asparklónninn 'Iðunn‛ var notaður í tilrauninni á Markarfljótsaurum. Trén voru orðin 4,33 m á hæð á 23. ári og árleg binding á hektara 9,3 tonn CO2. Hámarksbinding verður líklega þegar trén eru um 30-40 ára gömul..">

Ástæðan til þess að styrkur koltvíoxíðs eykst er að mannkynið brennir jarðefnaeldsneyti í miklu magni. Það virðist því rökrétt að draga úr þeirri brennslu eða hætta henni alveg. Hörðustu umhverfissinnarnir hamra á þeirri aðgerð. Vandinn er sá að flestar þjóðir eru mjög háðar þessu eldsneyti og efnahagur þeirra þolir ekki hraðfara niðurskurð á þessu sviði. Þess vegna er víða lögð áhersla á mótvægisaðgerðir jafnhliða minnkun á brennslu. Mikilvægar mótvægisaðgerðir fela í sér ýmiss konar bindingu á koltvíoxíði andrúmsloftsins.

Skógar mikilvirkastir í bindingu

Gróður bindur koltvíoxíð eins og allir vita. Skógar eru þar mikilvirkastir. Á okkar nánast skóglausa landi liggur því beint við að rækta meiri skóg, sem auk bindingarinnar hefur margvísleg umhverfisgæði í för með sér. Margir skógar framleiða einnig verðmætar viðarafurðir og eru fyrst og fremst ræktaðir vegna þeirra.

Þegar þessa bindingarleið ber á góma bregðast sumir náttúruverndarsinnar og stjórnmálamenn hér á landi ókvæða við eða láta sér fátt um finnast. Engu er líkara en þetta fólk telji þessa leið og yfirleitt allar bindingarleiðir hálfgert svindl. Það eina rétta sé að minnka losun. En þetta er að sjálfsögðu minnihlutasjónarmið. Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem og stjórnvöld allra landa viðurkenna skógrækt, og aðrar bindingarleiðir, sem hægt er að sanna að virki, sem öflugt vopn í baráttunni.


Á þessari mynd frá 2009 sést hvernig alaskalúpínan er farin að dreifa sér um svæðið. Lúpínan er forsenda þess að þessi mikli vöxtur verði í asparskóginum enda enginn tilbúinn áburður notaður og jarðvegurinn nitursnauður.">

Tækifæri í auðnum

Gróðurlitlar auðnir blasa við víða á láglendi Íslands. Þessi svæði binda varla margar sameindir af koltvíoxíði. Allur sjálfbær gróður sem nær að festa rætur á auðnunum er því mikil framför hvað varðar bindingu. Sumir hafa talið að skógrækt á auðnum væri illmöguleg, en nú hefur verið sýnt fram á hið gagnstæða. Landgræðsluskógaverkefnið, Kolviðarverkefnið, Húsgull og skóggræðsla skógræktarfélaga og annarra áhugamanna víða um land ber þessu vitni.

Lengi hafa skógræktarmenn horft löngunaraugum á sunnlensku sandana og séð þá í anda vaxna gróskumiklum skógum. Árin 1992 og 1993 réðst Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá í að leggja út margþættar tilraunir með ræktun aspar á Markarfljótsaurum í Rangárvallasýslu. Prófaðar voru mismunandi aðferðir við undirbúning gróðursetningar (þakningaraðferðir) og reyndir ólíkir klónar og plöntugerðir. Tilraunirnar voru mældar á fyrstu árunum en svo ekki fyrr en á síðasta vori að byrjað var að mæla þær upp. Þótt hvorki sé mælingum lokið né úrvinnslu þeirra mælinga sem komnar eru í hús þykir okkur rétt að kynna nú örlítið þann árangur sem blasir við á þessum tímamótum loftslagsmálanna.


Sumir hafa talið að skógrækt á auðnum væri illmöguleg, en nú hefur verið sýnt fram á hið gagnstæða.">

Mikil binding

Lifun í tilraununum er mjög góð, nánast óháð meðferð og hafa mjög fáar plöntur drepist. Vöxtur var hægur í byrjun og lengi framan af. Tré af klóninum 'Iðunni‛ sem þarna vaxa eru að meðaltali 4,33 m á hæð á 23. ári og þéttleiki N = 2375 (lítil afföll). Þá ætti sá kolefnisforði sem bundist hefur á undangengnum 23 árum að vera 29 tC/ha (108 tCO2/ha) og meðalbinding á ári þessi 23 ár 1,3 tC/ha/ár (4,7 tCO2/ha/ár). Árleg binding á 23. aldursári væri hins vegar 2,5 tC/ha/ár (9,3 tCO2/ha/ár). Hún á eftir að aukast mikið á næstu árum og nær sennilega hámarki þegar trén verða 30-40 ára. Trén hafa tekið mikinn vaxtarsprett á síðustu árum sem ráða má af lengd ársprota. Meginskýringin er vafalaust sú að lúpína hefur náð að breiðast út í tilraununum. Lúpínan sér um að binda úr lofti það næringarefni sem mestur skortur var á í þessum næringarsnauða sandi við upphaf tilraunar: nitur (N; köfnunarefni). Einnig hafa mörg hlý sumur verið á síðasta áratug.

Þáttur lúpínunnar er einnig áberandi í öðrum tilraunum á aurunum. Í örsnauðum sandinum hafa aspirnar nánast ekkert vaxið áður en lúpínan náði að breiðast til þeirra. Þarna virðist því blasa við uppskriftin að skóggræðslu sunnlensku sandanna!

Hér er loks mynd úr gömlum seyrutilraunum á Markarfljótsaurum sem sýnir hvílíkt kraftaverk lúpínan gerir á langsveltum öspum.">

Texti: Halldór Sverrisson, Aðalsteinn Sigurgeirsson og Þorbergur Hjalti Jónsson
Myndir: Halldór Sverrisson