Morgunblaðið rifjar í dag upp í dálki sínum, „Þetta gerðist“ að hinn 3. nóvember 1945 hafi Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, komið heim úr þriggja mánaða ferð til Alaska og haft meðferðis fræ af lúpínu sem óx þar „villt um allt,“ eins og hann sagði í viðtali við blaðið. Þetta muni vera upphaf lúpínuræktar hérlendis.
Víðlesnasta dagblað Hollands, De Trouw, birti á dögunum viðtal við Aðalstein Sigurgeirsson, forstöðumann Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, og Björn Guðbrand Jónsson, framkvæmdastjóra samtakanna Gróðurs fyrir fólk. Í viðtalinu er rætt um gróðurfarssögu Íslands frá landnámi og þá skógrækt sem hér hefur verið stunduð í landinu í rúma öld.
Sænska sendiráðið og IKEA bjóða til málþings um hagkvæma og umhverfisvæna byggingarkosti í þéttbýli miðvikudaginn 4. nóvember á veitingastað IKEA að Kauptúni 4 í Garðabæ. Húsið verður opnað kl. 8.30 og dagskrá hefst kl. 9.00.
Á evrópsku skógarvikunni, Silva 2015, sem hófst í dag í Engelberg í Sviss, er fjallað um verðmæti skóga frá ýmsum sjónarhornum. Metin verða gildi og verðmæti þeirrar fjölbreytilegu þjónustu sem skógarnir veita og jafnframt að skoða hvað skógarnir geta lagt til græna hagkerfisins.
Auk viðamikillar skýrslu um ástand skóga Evrópu komu út tvær mikilvægar árangurs- og áfangaskýrslur á sjöunda ráðherrafundi Forest Europe sem haldinn var í Madríd 20.-21. október. Í skýrslum þessum er litið á hvernig gengið hefur að fylgja eftir þeim markmiðum sem ráðherrar skógarmála hafa sett álfunni á fyrri ráðherrafundum Forest Europe.