Eplatré í blóma í mið-evrópskum skógi.
Eplatré í blóma í mið-evrópskum skógi.

Tvær skýrslur um málið komu út á ráðherrafundinum í Madríd

Til viðbótar við skýrsluna um ástand skóga Evrópu, sem við höfum þegar sagt frá hér á skogur.is, komu út tvær mikilvægar skýrslur á sjöunda ráðherrafundi Forest Europe sem haldinn var í Madríd 20.-21. október. Í skýrslum þessum er litið á hvernig gengið hefur að fylgja eftir þeim markmiðum sem ráðherrar skógarmála hafa sett álfunni á fyrri ráðherrafundum Forest Europe.

Fyrri skýrslan af þessum tveimur heitir á ensku Implementation of the FOREST EUROPE Commitments - National and pan-European actions 2011-2015. Þar er kafað ofan í hvernig einstökum löndum og svæðum hefur gengið að innleiða pólitísk markmið sem sett hafa verið undir merkjum Forest Europe samstarfsins með skýrslum, yfirlýsingum og samþykktum. Sérstaklega er litið til þess hversu vel hefur verið staðið við þær samþykktir sem gerðar voru á sjötta ráðherrafundinum sem haldinn var í Ósló 2011.

Þetta er fjórða árangursskýrslan af þessum toga sem gefin er út. Þær fyrri komu út á ráðherrafundum Forest Europe í Vín 2003, Varsjá 2007 og Ósló 2011. Skýrslurnar hafa að geyma upplýsingar um hversu vel hvert aðildarlandanna hefur náð að standa við skuldbindingar sínar. Litið er á þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og þær leiðir sem farnar hafa verið en líka þá reynslu sem af þessu hefur fengist. Þarna er auk þess að finna valdar reynslusögur frá aðildarlöndunum sem lýsa árangursríkum verkefnum.

Seinni skýrslan af þessum tveimur kallast á ensku því langa nafni Meeting the Goals for European Forests and the European 2020 Targets for Forests - Report on the Mid-term Evaluation of the Goals for European Forests and the European 2020 Targets for Forests. Hana skrifuðu sérfræðingar evrópsku skógarstofnunarinnar, European Forest Institute (EFI). Þetta er áfangaskýrsla um hvernig gengið hefur að innleiða átta markmið um evrópska skóga og níu evrópsk 2020-markmið um skóga. Öll endurspegla þessi markmið sameiginlega sýn þeirra fulltrúa sem sátu ráðherrafundinn í Ósló 2011. Við skýrslugerðina lágu fyrir upplýsingar um 29 af 35 sam-evrópskum vísum um sjálfbærar skógarnytjar og alla megindlegu vísana.

Saman gefa þessar tvær skýrslur ítarlegt yfirlit um hvernig gengið hefur að ná Óslóarmarkmiðunum, hvort sem litið er til einstakra landa eða svæða innan Evrópu. Þær ályktanir sem dregnar verða af þessari greiningarvinnu nýtast einnig stjórnmálaumræðunni og draga fram þá kosti sem löndin hafa, bæði til að nýta ýmis tækifæri sem gefast og kljást við úrlausnarefni á sviði Forest Europe samstarfsins.

Skýrslunum tveimur má hlaða niður hér:

Frétt á vef Forest Europe
Íslenskur texti: Pétur Halldórsson