„Í dal kom jeg með fokjarðvegi, sem minnir mjög á jarðveg og landslag á Rangárvöllum. Nema hvað ábúð…
„Í dal kom jeg með fokjarðvegi, sem minnir mjög á jarðveg og landslag á Rangárvöllum. Nema hvað ábúð landsins hefir ekki enn komið uppblæstri af stað.“

Hákon Bjarnason kom með lúpínufræin til landsins 3. nóvember 1945

Morgunblaðið rifjar í dag upp í dálki sínum, „Þetta gerðist“ að hinn 3. nóvember 1945 hafi Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, komið heim úr þriggja mánaða ferð til Alaska og haft meðferðis fræ af lúpínu sem óx þar „villt um allt,“ eins og hann sagði í viðtali við blaðið. Þetta muni vera upphaf lúpínuræktar hérlendis.

Þremur dögum síðar, 6. nóvember 1945, birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem rætt er við Hákon sem segist í spjalli við blaðið vera sannfærðari um það en áður að í engu betra loftslagi í Alaska en íslenska loftslagið er, vaxi stórfelldir skógar, einkum af sitkagreni. Þar vestra sé líka miklu meiri fjölbreytni í gróðri en hér, finna megi ný fóðurgrös og fjölda nýrra trjátegunda. Þá segir Hákon orðrétt: „Lúpinutegund eina tók jeg með mjer, t.d. sem vex villt um alt, og nær miklum þroska.“

Þessi nefnda frétt í Morgunblaðinu frá því fyrir sjötíu árum er annars á þessa leið:

Nytjaskógar í Alaska í sama loftslagi og hjer

Hákon Bjarnason kominn heim með mikinn fróðleik


   HÁKON BJARNASON skógræktarstjóri er mjög ánægður yfir ferð sína til Alaska. Hann er kominn heim eftir 3 mánaða ferð, sannfærðari en áður um framtíðarmöguleika íslenskrar skógræktar.
   Hann kom hingað loftleiðis á laugardaginn var.
   Í gær komst hann að orði á þessa leið um það sem fyrir hann hafði borið í Alaska og það sem hann þar hafði komist að raun um í stuttu máli:
   Jeg er sannfærðari um það en áður, af því nú hefi jeg sjeð það sjálfur með eigin augum, að í engu betra loftslagi í Alaska, en íslenska loftslagið er, vaxa stórfeldir skógar, einkum af sitkagreni.
   Í gróðurríki Alaska eru mikið fleiri plöntutegundir en hjer á landi, þó loftslag sje mjög svipað. Geri jeg ráð fyrir að þar sjeu þrefalt fleiri tegundir en hjer á landi. Margar ættir eru til þar, sem als ekki eru til hjer. En af þeim ættum, sem eru til á báðum stöðunum, eru mikið fleiri tegundir þar en hjer. Þar eru t.d. 7 tegundir af melgrasi, en aðeins ein hjer. - Þarna vestur frá ættum við að geta fundið og flutt inn hingað ný fóðurgrös.
   Að ógleymdu trjáfræinu. - Við vorum saman við fræsöfnun um tíma Vigfús Jakobsson og jeg og höfðum nokkra menn með okkur. Söfnuðum einkum fræi af sitkagreni. Mikið var af fræi á sitkagreninu í sumar. Verður fræið sem við söfnuðum að sjálfsögðu þreskt fyrir vestan. Vonast jeg til að við fáum hingað ca. 100 pund af trjáfræi.
   - Hverjar nýjar tegundir tókst þú með þjer?
   Jeg á von á einum 15-20 tegundum, sem eru nýjar fyrir Ísland. Meðal þeirra er hávaxinn bláberjarunni, sem jeg er viss um að geti þroskast hjer. Annars er ómögulegt að gera sjer grein fyrir því í fljótu bragði, hve mikið við getum grætt á því í framtíðinni að fá hingað ýmsar plöntutegundir frá Alaska. Lúpinutegund eina tók jeg með mjer, t.d. sem vex villt um alt, og nær miklum þroska.

   - Hvernig er umhorfs í Alaska?
   - Það er saga að segja frá því, segir Hákon. Þó ættum við Íslendingar mörgum fremur að geta skilið og gert okkur grein fyrir því, hvernig landið er. - Því það er mjög líkt Íslandi á margan hátt, ef maður hugsar sjer íslensku fjöllin og margfaldar hæð þeirra með þrem og fjórum. Þar eru skriðjöklar og svo hrikaleg fjöll, að það sem hjer sjest af því tagi eru smámunir og sandar við sjó eins og Skeiðarár og Breiðamerku-sandar. Í dal kom jeg með fokjarðvegi, sem minnir mjög á jarðveg og landslag á Rangárvöllum. Nema hvað ábúð landsins hefir ekki enn komið uppblæstri af stað.
   - Og fólkið?
   - Alveg prýðilegt. - Menn þar vestra vilja alt fyrir okkur gera. Þeim þykir gaman að því að geta greitt götu okkar. Og við munum hafa mikil not af greiðvikni þeirra í framtíðinni. Því áframhaldandi samband við Alaska verður nauðsynlegt fyrir íslenska skógrækt og til mikils gagns fyrir jarðrækt okkar yfirleitt. Það er jeg alveg viss um, segir Hákon af hjartans sannfæringu.

Texti: Pétur Halldórsson