Skógurinn í dalnum, „Forêt de la Combe“, sigurmyndin úr verðlaunasamkeppni FAO um gildi skóganna, Va…
Skógurinn í dalnum, „Forêt de la Combe“, sigurmyndin úr verðlaunasamkeppni FAO um gildi skóganna, Value of Forests. Myndina tók Julia Kelly frá Bretlandi í skógi sem hún lék sér mikið í á uppvaxtarárum sínum í Sviss.

Fjallað um verðmæti skóganna frá ýmsum sjónarhornum

Í dag hófst evrópska skógarvikan, Silva 2015, í svissneska alpaþorpinu Engelberg. Þetta er fimm daga ráðstefna sem nú er haldin í þriðja sinn. Að henni stendur UNECE, efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna um Evrópu, ásamt skógarráði FAO fyrir Evrópu. Viðfangsefni vikunnar eru verðmæti skóganna frá ýmsum sjónarhornum.

Til leiks kemur hagsmunafólk sem ýmist tengist skógargeiranum eða ekki, fulltrúar stjórnvalda, skógareigenda, fyrirtækja, umhverfissamtaka, vísindafólk og stúdentar hvaðanæva úr Evrópu en einnig frá Rússlandi, Mið-Asíu, Kákasusfjöllum og Norður-Ameríku.


Eitt meginmarkmið skipuleggjendanna með evrópsku skógarvikunni er að þátttakendur fái tækifæri til að leggja sitt til umræðunnar um skógarmál, bæði í Evrópu og á heimsvísu, en einnig að miðla af reynslu sinni og þekkingu, fræðast af öðrum og mynda tengsl.

Sem fyrr segir er meginviðfangsefni evrópsku skógarvikunnar að þessu sinni að meta gildi og verðmæti þeirrar fjölbreytilegu þjónustu sem skógarnir veita en jafnframt að skoða hvað skógarnir geti lagt til græna hagkerfisins. Frá mánudegi til fimmtudags vinna sérfræðingar saman að því að móta tillögur eða viðmið um þessi efni fyrir lönd Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu en síðasta daginn býður kantónan Obwalden þátttakendum til kynnisferða þar sem sjónum verður beint að þeirri vernd sem skógarnir veita, hvernig takast megi á við ógnanir og tækifæri, drykkjarvatni og málefnum sem snerta byggingariðnað og viðarorku.


Auk auglýstrar dagskrár fara ýmsir fundir og viðburðir fram til hliðar við sjálfa ráðstefnuna. Gestgjafinn er svissneska ríkið ásamt, kantónunni Obwalden og sveitarfélaginu Engelberg.

Í dag skoðuðu ráðstefnugestir meðal annars veggspjaldasýningar og kynnt voru úrslit úr ljósmyndasamkeppni sem FAO hélt um gildi skóganna, Value of forests. Yfir eitt hundrað ljósmyndir bárust frá 34 löndum. Þátttakendum var uppálagt að sýna í myndum sínum hvernig skógar á þeirra heimaslóðum stuðluðu að bættri heilsu fólks, velsæld og vellíðan, fóstruðu líffjölbreytni og legðu til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Svissneski skógfræðingurinn og ljósmyndarinn Christian Küchli valdi fjóra þátttakendur til úrslita og loks var sigurvegarinn valinn með hjálp gesta á Facebook-síðu FAO. Alls tóku yfir 2000 manns þátt í kjörinu.

#EFW2015

Texti: Pétur Halldórsson