Örfyrirlestraröð á Kaffi Loka í Reykjavík í tilefni af ári jarðvegs 2015 lýkur miðvikudaginn 4. nóvember með því að fjallað verður um mikilvægi moldarinnar í borgarvistkerfum. Augum verður beint að vistkerfum í þéttbýli og fjallað um ýmislegt þeim tengt. Til dæmis verður rætt hvaða áhrif aukinn trjágróður hefur í þéttbýli á t.d. loftgæði, vatnsmiðlun og kolefnisbindingu. Fundurinn stendur í klukkutíma og hefst kl. 12.
Það er tilkomumikil sjón og nokkuð óvenjuleg hérlendis að mæta þremur fullhlöðnum timburbílum á förnum vegi. Þetta getur þó hent þessa dagana því nú vinnur verktakinn J. Hlíðdal ehf. að því að flytja grisjunarvið úr norðlenskum skógum til járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga.
Nú þegar lauf er fallið af birkinu á Þórsmörk verður einirinn í skógarbotninum áberandi. Athygli vekur hversu margar af fræplöntum einisins eru uppréttar og nokkuð beinvaxnar. Líklegt má telja að skýringanna megi leita í erfðaþáttum en þetta væri verðugt rannsóknarefni fyrir trjáerfðafræðinga.
Líffræðingafélag Íslands heldur Líffræðiráðstefnuna 2015 dagana 5.-7. nóvember í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar við Sturlugötu í Reykjavík. Á ráðstefnunni verður meðal annars rætt um áhrif sauðfjárbeitar á gróður, tilraunir til eyðingar lúpínu og blendingssvæði balsamaspar og alaskaaspar í Bresku-Kólumbíu.
Ellefu umsækjendur eru um stöðu skógræktarstjóra, en umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsti starfið laust til umsóknar þann 3. október síðastliðinn.