Tilkomumikil og óvenjuleg sjón er að sjá þrjá timburbíla í halarófu á íslenskum vegum. Vaðlareitur í…
Tilkomumikil og óvenjuleg sjón er að sjá þrjá timburbíla í halarófu á íslenskum vegum. Vaðlareitur í Eyjafirði í baksýn.

Þrír timburbílar á ferðinni þessa dagana

Það er tilkomumikil sjón og nokkuð óvenjuleg hérlendis að mæta þremur fullhlöðnum timburbílum á förnum vegi. Þetta getur þó hent þessa dagana því nú vinnur verktakinn J. Hlíðdal ehf. að því að flytja grisjunarvið úr norðlenskum skógum til járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga.

Vegfarendur hafa eins og skiljanlegt er rekið upp stór augu þar sem timburbílarnir hafa verið á ferð. Nú er árangur skógræktar á Íslandi farinn að sýna sig með mjög áþreifanlegum hætti því magn þess timburs sem fæst úr skógunum eykst ár frá ári. Gjarnan heyrast þær raddir að illa sé farið að og illa gert gagnvart þeim sem gróðursettu á sínum tíma að aka viðnum til brennslu á Grundartanga en þar gætir mikils misskilnings. Grisjun skóganna leiðir til þess að trén sem eftir standa vaxa áfram og verða að enn verðmætari efniviði sem verður smíðaviður í fyllingu tímans. Sala grisjunarviðar til Elkem dregur úr þörfinni fyrir innflutt timbur til starfseminnar og það stuðlar að minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er því allra hagur.


Timbrið sem verið er að aka af Norðurlandi þessa dagana er að langmestu leyti afrakstur vélgrisjunar í skógum Fnjóskadals og í Ljósavatnsskarði. Yngsti reiturinn sem grisjaður var er á Vöglum á Þelamörk þar sem gróðursett var árið 1982. Annars eru þetta reitir frá árabilinu 1960-1970. Reitina grisjuðu þeir Kristján Már Magnússon skógverktaki og Óskar Einarsson skógvélamaður hjá fyrirtækinu 7,9,13. Luku þeir verkinu í byrjun september.

Rúnar Ísleifsson skógarvörður segir að í Þórðarstaðaskógi hafi verið grisjaðir um 370 rúmmetrar, stafafura, síberíulerki og rauðgreni. Í Sigríðarstaðaskógi hafi nánast eingöngu verið grisjuð stafafura sem gaf um 200 rúmmetra og úr Vaglaskógi komu 280 rúmmetrar með grisjun stafafuru og lerkis ásamt svolitlu af rauðgreni. Þá var einnig grisjað töluvert á Vöglum á Þelamörk, segir Rúnar, þar sem fengust 340 rúmmetrar, aðallega af stafafuru en einnig lerki og örlítið af ösp. Alls eru þetta um 1.200 rúmmetrar. Myndarleg stæða af sverum bolum stendur líka eftir við starfstöð Skógræktarinnar á Vöglum í Fnjóskadal. Bolirnir verða flettir í borð og planka í nýrri sög sem keypt hefur verið til stöðvarinnar.


Auk skóga Skógræktar ríkisins var vélgrisjað í skógum skógarbænda, um 80 rúmmetrar, og reitum Skógræktarfélags Eyfirðinga, bæði í Kjarnaskógi og á Miðhálsstöðum í Öxnadal. Að sögn Ingólfs Jóhannssonar, framkvæmdastjóra félagsins, voru afgreiddir um þrjú hundruð rúmmetrar kurlviðar til Elkem en einnig var talsvert tekið frá af myndarlegum bolum sem flettir verða og unnir í smíðavið. Í sumar voru smíðaðir lágir ljósastaurar úr lerkibolum frá félaginu og settir upp við nýjan útivistarstíg með fram Drottningarbraut á Akureyri og einnig voru seld bök í fallega girðingu við Síðuskóla á Akureyri. Ingólfur segir að sífellt meira sé spurt um íslenskt hráefni til smíða ýmiss konar.


Samtals eru þetta um og yfir 1.500 rúmmetrar af grisjunarviði sem verið er að aka suður á Grundartanga þessa dagana. Hátt í 40 ferðir þarf að fara með fulllestaða bíla til að koma öllu þessu timbri til kaupandans.

Meðfylgjandi myndir voru teknar nú í vikunni þegar timburbílarnir frá J. Hlíðdal ehf. voru á ferðinni og þegar verið var að lesta bílana úr stafla við Lund í Fnjóskadal. Hér fylgir líka myndband sem sýnir vel þau stórtæku tæki sem nú eru notuð við að lesta bílana.

Enn er verið að þróa aðferðir við bæði vélgrisjun og timburflutninga og smám saman finna menn hagkvæmustu og bestu aðferðirnar. Slíkt þróunarstarf tekur sinn tíma. Meðal annars þarf að finna jafnvægi milli þess hvernig best sé að standa að grisjuninni, hversu vel þurfi að greinahreinsa bolina, hversu þétt að stafla á bílana og þess háttar til þess að útkoman verði sem hagkvæmust fyrir alla.

Myndband: Viðarferming í Fnjóskadal


Þarna eru a.m.k. 100 rúmmetrar af íslenskum trjáviði á ferðinni um Leiruveginn.
Skógurinn í Bæjarbrekkunum á Akureyri fyrir handan.

"> Timburbíll á ferð á Þelamörk í lok október 2015.


Myndarleg útgerð timburbíla. Fyrsti snjórinn féll í Fnjóskadal þegar vika var eftir af
októbermánuði en hefur nú tekið upp aftur. Snjór hefur því ekki verið til trafala
við timburflutningana þetta haustið.

#Skogaraudlindin

Texti og myndefni: Pétur Halldórsson