Haldin í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í Reykjavík 5.-7. nóvember

Líffræðingafélag Íslands heldur Líffræðiráðstefnuna 2015 dagana 5.-7. nóvember í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar við Sturlugötu í Reykjavík. Á ráðstefnunni verður meðal annars rætt um áhrif sauðfjárbeitar á gróður, tilraunir til eyðingar lúpínu og blendingssvæði balsamaspar og alaskaaspar í Bresku-Kólumbíu. Skráningu lýkur 5. nóvember.

Ráðstefnan spannar alla líffræði og verða alls fluttir yfir 100 fyrirlestrar og sýnt annað eins af veggspjöldum. Haldnar verða tvenns konar málstofur helgaðar sérstökum viðfangsefnum, annars vegar um vistkerfi jarðhitasvæða og hins vegar um áhrif sauðfjárbeitar.

Meðal fyrirlestra má nefna að í málstofu F4 ræðir Róbert A. Stefánsson um aðgerðir gegn ágengum plöntum og Þorvaldur Örn Árnason spyr hvort hægt sé að hafa hemil á alaskalúpínunni.

Í málstofu F5 flytur Pawel Wasowicz fyrirlestur um aðfluttar plöntur í háplöntuflóru til fjalla og á hálendinu. Einnig heldur Jonathan Willow þar erindi sem hann nefnir á ensku Pollinator diversity in native heath and alien Nootka lupine stands in Iceland og fjallar um fjölbreytni frjóbera í mólendi annars vegar og lúpínubreiðum hins vegar.

Málstofa F6 verður um áhrif sauðfjárbeitar og þar ræðir Ingibjörg Svala Jónsdóttir muninn á beit villtra grasbíta og búpenings í hálendisvistkerfum, Egill Erlendsson fjallar um söguleg áhrif beitar í Kjarardal og Martin A. Mörsdorf um áhrif 60 ára beitarfriðunar á fjölbreytni gróðurfars á íslenskri túndru. Þá fjallar Ólafur Arnalds um ástand lands, beit og mælanlega vistkerfisþætti og loks Sigþrúður Jónsdóttir um tengsl átgetu og þrifa sauðfjár við ástand grópurs og beitarálag. Í þessari málstofu verður svo efnt til pallborðsumræðna.

Í málstofu L11 ræðir Sæmundur Sveinsson um flæði erfðamengis á hinu stóra blendingssvæði balsamaspar og alaskaaspar í Bresku-Kólumbíu.

Staðfestir öndvegisfyrirlesarar verða:

Líffræðifélag Ísland skipuleggur ráðstefnuna í samstarfi við Líffræðistofu HÍ, Verk- og náttúruvísindasvið HÍ, Lífvísindasetur HÍ, Hafrannsóknastofnun, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólann á Hólum, Keldur, tilraunastöð HÍ í meinafræði, Náttúrufræðistofnun HÍ, Samtök náttúrustofa, Háskólann á Akureyri, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Stofnun Rannsóknarsetra Háskóla Íslands og fleiri.

Texti: Pétur Halldórsson