Ísland hefur risatromp á hendi í formi kol­efn­is­bind­ing­ar með skóg­rækt, segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, í Morgunblaðinu í dag. Nóg sé af landsvæði sem ekki sé í ann­arri notk­un sem nýta mæti til að binda kol­efni úr loft­hjúpi jarðar sem sé til­tölu­lega skil­virk og ódýr leið.
Stórt timburfyrirtæki í Austurríki, sem selur byggingavöruverslunum og kurlverksmiðjum víða um Evrópu timbur, er nú sakað um að stuðla að eyðingu síðustu ósnortnu frumskóganna í Rúmeníu með því að versla með timbur úr ólöglegu skógarhöggi. Fyrirtækið neitar sök en óháðir rannsakendur segjast hafa undir höndum sannanir. Í Rúmeníu eru einhverjir stærstu óspilltu frumskógar Evrópu sem fóstra fjölbreytt lífríki og sjaldgæfar tegundir spendýra.
Á sjöunda ráðherrafundi Forest Europe sem lauk í gær í Madríd á Spáni var einhugur um að hlúa þyrfti að skógum álfunnar á þeim breytingatímum sem nú eru. Í skógunum byggju ótal tækifæri sem nýttust á veginum til græns hagkerfis, ekki síst til að skapa ný græn störf. Ekki náðist að sinni samkomulag um lagalega bindandi skógarsáttmála fyrir álfuna en viðræðum um slíkan sáttmála verður haldið áfram.
Skógar Evrópu hafa breiðst út undanfarinn aldarfjórðung og ná nú yfir 215 milljónir hektara sem nemur þriðjungi af öllu landi álfunnar. Og skógarnir stækka enn. Þetta er meðal niðurstaðna nýjustu skýrslu Forest Europe um ástand skóga Evrópu sem er nýkomin út. Fjöldi þeirra Evrópulanda sem hafa sett sér landsáætlanir um skógrækt hefur þrefaldast frá árinu 2007. Ísland er í hópi þeirra landa Evrópu sem enn hafa ekki sett sér slíka áætlun.
Skógrækt getur dregið úr áhrifum ýmissa náttúruhamfara, sérstaklega þeirra sem tengjast eldgosum og jökulhlaupum. Um þetta er fjallað í Morgunblaðinu í dag og rætt við Úlf Óskarsson, lektor við LbhÍ, sem segir að skógi- eða kjarrivaxið land myndi líklega standast betur hamfarir á við Skaftárhlaup en land sem vaxið væri lággróðri eingöngu. Þetta sama gildir um öskufall eins og sýndi sig í Eyjafjallajökulsgosinu 2010. Eitt meginmarkmiðið með Hekluskógaverkefninu er að rækta birkiskóga sem koma í veg fyrir uppblástur eftir öskugos úr Heklu.