Sjöunda ráðherrafundi Forest Europe lauk í Madríd í gær

Á sjöunda ráðherrafundi Forest Europe sem lauk í gær í Madríd á Spáni var einhugur um að hlúa þyrfti að skógum álfunnar á þeim breytingatímum sem nú eru. Í skógunum byggju ótal tækifæri sem nýttust á veginum til græns hagkerfis, ekki síst til að skapa ný græn störf. Ekki náðist að sinni samkomulag um lagalega bindandi skógarsáttmála fyrir álfuna en viðræðum um slíkan sáttmála verður haldið áfram.

Eins og við greindum frá hér á skogur.is í gær hafa skógar Evrópu stækkað jafnt og þétt síðasta aldarfjórðunginn. Um leið hefur gengið vel að innleiða sjálfbæra skógarumhirðu og -nytjar í álfunni. Árangurinn er sá að skógar Evrópu eru nú bæði stærri en áður og betur um þá hugsað.


Skógar skipta miklu máli fyrir velferð samfélaga í Evrópu. Eftir því sem skógarnir stækka og víðar er um þá hirt með sjálfbærum hætti eflist sá umhverfislegi, efnahagslegi og samfélagslegi hagur sem af þeim hlýst. Því betur sem gengið er um skógana því betur eru jarðvegsgæði tryggð, vatnsauðlindin eykst og batnar, búsvæði fyrir skógarlífverur stækka, varnir gegn ýmiss konar náttúruhamförum eflast, svo sem vatnsflóðum, skriðuföllum og snjóflóðum, auk þess sem meira fæst úr skógunum af ýmiss konar afurðum og ný störf verða til í tengslum við skógarumhirðu og skógarnytjar. Með öðrum orðum felur sjálfbær þróun í sér aukin tækifæri.

En þrátt fyrir þær góðu fréttir að evrópsku skógarnir stækki og eflist blasa nú við þeim bæði nýjar ógnir og viðfangsefni. Á móti kemur að með þeim breytingum sem nú eru í gangi skapast líka ný tækifæri. Ýmsir möguleikar sem skógarnir hafa að bjóða eru líka augljósari nú en áður.

Markmiðið með sjöunda ráðherrafundinum í Madríd 20.-21. október var að þjappa stjórnmálamönnum álfunnar betur saman um þær aðgerðir sem þörf er á til að fást við þessi nýju viðfangsefni og tækifæri. Til fundarins komu ráðherrar og hátt settir embættismenn frá 38 Evrópulöndum að Evrópusambandslöndunum meðtöldum. Fulltrúar átján alþjóðasamtaka, þar á meðal samtaka skógareigenda, fólk úr háskóla- og rannsóknarsamfélaginu, fulltrúar fjölþjóðlegra samstarfsverkefna og aðrir hagsmunaaðilar um skógarmál sátu fundina sem áheyrnarfulltrúar.


Áfram unnið að gerð bindandi sáttmála

Auk venjubundins ráðherrafundar var haldinn sérstakur ráðherrafundur, Extraordinary Misterial Conference, 21. október þar sem sérstök viðræðunefnd skipuð stórnvöldum aðildarlandanna kynnti drög að bindandi skógarsáttmála fyrir Evrópu. Ekki náðist samkomulag um slíkan sáttmála að þessu sinni en ákveðið var að halda starfinu áfram og stefna að því að sáttmálinn verði samþykktur síðar.

Ráðherrarnir urðu þó ásáttir um að efla bæri hlutverk sjálfbærra skógarnytja í græna hagkerfinu. Á veginum til græna hagkerfisins fælust mikil tækifæri til þróunar í skógargeiranum og þar með til að skapa ný græn störf. Jafnframt gæfi þessi þróun færi á að þróa skógargeirann í nýjar áttir, ný markaðstækifæri yrðu til og atvinnutækifæri sem byggð væru á öðrum gæðum skóganna en trjáviði.

Áberandi var þessa tvo fundardaga hversu mikla áherslu fundarmenn lögðu á mikilvægi Forest Europe samstarfsins fyrir evrópska skóga. Þetta er sjálfboðað samstarf á hæsta stigi stjórnsýslunnar og greinilegt var á fundinum að fólki þetta vera mikilvægur vettvangur til að stuðla að aðgerðum, bæði í hverju landi fyrir sig og svæðisbundið um álfuna. Í fréttatilkynningu Forest Europe er haft eftir Isabel García Tejerina, ráðherra landbúnaðar, matvæla og umhverfis á Spáni, að Forest Europe hafi skipt sköpum við að efla samstarf þjóðanna um skógarmálefni og innleiða sjálfbæra skógarumhirðu um alla álfuna á þeim tuttugu og fimm árum sem þetta samstarf hefur staðið. Svo muni verða áfram.


FOREST EUROPE Ministerial Conferences

Texti: Pétur Halldórsson