Rúmenskur frumskógur. Talið er að um 280.000 hekturum frumskógar í Rúmeníu hafi verið eytt undanfari…
Rúmenskur frumskógur. Talið er að um 280.000 hekturum frumskógar í Rúmeníu hafi verið eytt undanfarinn áratug, að verulegu leyti með ólöglegu skógarhöggi.

Síðustu frumskógum Evrópu ógnað

Jafnvel þótt skógar Evrópu fari nú stækkandi og sífellt fleiri evrópskir skógar séu nýttir með sjálfbærum hætti eru enn óleyst vandamál sem þarf að kljást við. Stórt timburfyrirtæki í Austurríki, sem selur byggingavöruverslunum og kurlverksmiðjum í mörgum löndum Evrópu timbur, er nú sakað um að stuðla að eyðingu síðustu ósnortnu frumskóganna í Evrópu með því að versla með timbur úr ólöglegu skógarhöggi.

Alþjóðleg umhverfissamtök sem stunda rannsóknir á ólöglegum athæfum sem ógna náttúrunni, Environmental Investigation Agency (EIA), hafa rannsakað málið um tveggja ára skeið og segjast nú hafa undir höndum upptökur sem sýni fulltrúa austurríska fyrirtækisins Holzindustrie Schweighofer bjóðast til að kaupa timbur af rannsóknarmönnum sem þóttust vera timburkaupmenn. Teknar voru myndir af ómerktum trjábolum sem höfðu verið affermdir á lóð fyrirtækisins. Reynist þetta rétt er þetta brot á rúmenskum lögum.

Schweighofer-fyrirtækið er stærsti timburframleiðandinn í Rúmeníu og vinnur um 40% af ársframleiðslu landsins af mjúkviði úr barrskógum. Rúmenía er stórt land, talsvert meira en tvöföld stærð Íslands, og þar eru enn einhverjir stærstu óspilltu frumskógar Evrópu. Þessir skógar fóstra fjölbreytt lífríki og þar lifa villtir vísundar, gaupur, birnir og villigeitur. Síðasta áratug hefur 280.000 hekturum þessara skóga verið eytt. að verulegu leyti með ólöglegu skógarhöggi.


Samtökin EIA áætla að um helmingur alls skógarhöggs í Rúmeníu sé utan við lög og reglu. Það byggja samtökin á opinberum skýrslum í Rúmeníu og heimildum frá frjálsum félagasamtökum þar í landi. Fullyrt er að í flestum þeim tilvikum sem samtökin hafa flett ofan af ólöglegri timbursölu hafi Schweighofer-fyrirtækið verið með í spilinu.

Breska blaðið Guardian fjallaði um málið nú í vikunni og hefur eftir talsmönnum Schweighofer að fulltrúar þeirra segist aldrei hafa tekið við ólöglegu timbri og ómerktir bolir hafi aldrei verið affermdir á athafnasvæðum fyrirtækisins, hvorki geymslusvæðum né sögunarmyllum. Fyrirtækið hefur lýst því yfir að stefna þess sé að nýta skóga með sjálfbærum hætti og skógar þess hafi vottun óháðu vottunarstofnananna FSC (Forest Stewardship Council) og  PEFC (Programme for the Enforcement of Forest Certification).

Útsendarar EIA-samtakanna hafa haft samband við yfirmenn Schweighofer-fyrirtækisins undir því yfirskini að þeir væru fjárfestar, tilbúnir til að sveigja reglur um skógarnytjar. Á fundum, í tölvuskeytum og símtölum hafa þeir spurt viðkomandi yfirmenn hvort þeir væru tilbúnir að kaupa timbur úr skógi þar sem meira hefði verið fellt en leyfi væri fyrir. Því hafi fleiri en einn yfirmenn hjá Schweighofer játað og játningar þessar hafi EIA-menn fest á hljóð- og myndbandsupptökur.

.">

Forsvarsmenn Schweighofer neita þessum ásökunum og segja að orð forsvarsmanna þeirra hafi verið tekin úr samhengi. Leiki grunur á að ekki hafi allt verið með felldu á leið timbursins úr skógi til fyrirtækisins sé hætt við kaupin og öllu timbri sem fyrirtækið kaupi fylgi skjöl sem sýni uppruna þess. Á hinn bóginn virðist sem svo að samkvæmt rúmenskum skattaskjölum hafi fyrirtækið keypt timbur af meira en 1.000 mismunandi timbursölum í Rúmeníu árið 2014. EIA fullyrðir að illgerlegt sé að útiloka ólöglega fengið timbur þegar keypt sé timbur frá svo mörgum mismunandi birgjum. Schweighofer rekur þrjár sögunarmyllur í Rúmeníu og tvær verksmiðjur.

Þetta er margslungið mál og kemur illa við skógariðnaðinn í Evrópu sem hefur verið að þróast í átt til sjálfbærni á undanförnum árum. Um allan heim hefur náðst góður árangur í baráttunni við ólöglega timbursölu og því þykir mörgum hart að í miðri Evrópu skuli koma upp á yfirborðið mál af þessum toga. Í Rúmeníu er mikið rætt um ólöglegt skógarhögg og erfitt hefur reynst að stemma stigu við því að landeigendur gangi meira á skóga sína en talið er ráðlegt.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson