Evrópa flytur nú meira út en inn af timbur- og pappírsvörum

Skógar Evrópu hafa breiðst út undanfarinn aldarfjórðung og ná nú yfir 215 milljónir hektara sem nemur þriðjungi af öllu landi álfunnar. Og skógarnir stækka enn. Þetta er meðal niðurstaðna nýjustu skýrslu Forest Europe um ástand skóga Evrópu sem er nýkomin út. Fjöldi þeirra Evrópulanda sem hafa sett sér landsáætlanir um skógrækt hefur þrefaldast frá árinu 2007. Ísland er í hópi þeirra landa Evrópu sem enn hafa ekki sett sér slíka áætlun.

Í frétt um útkomu skýrslunnar á vef Forest Europe kemur líka fram að á þessum 25 árum hafi gengið vel að innleiða sjálfbæra nýtingu og umhirðu skóga í Evrópu. Æ fleiri lönd í álfunni hafi gert umbætur á skógræktarstefnu sinni, nýtingaráætlunum og þeim tækjum sem nauðsynleg eru til að framfylgja stefnunni.

Aukin útbreiðsla skóganna og framfarir í átt til sjálfbærrar nýtingar eru þeir tveir þættir sem tíundaðir eru í skýrslunni sem markverðasti árangurinn. Skýrsla þessi kemur nú út í fjórða sinn og hún hefur sem fyrr að geyma ítarlegt yfirit um skóga í Evrópu, ástand þeirra, útlit og horfur en líka þau tól og tæki sem stjórnvöld hafa til að bregðast við breytingum. Skýrslan er einnig fróðleg lesning um sjálfbærar skógarnytjar í álfunni á árabilinu 1990-2015.

Skýrslan heitir á ensku State of Europe's Forests 2015 og hún var kynnt á sjöunda ráðherrafundi Forest Europe sem lýkur í dag í Madríd á Spáni. Ráðherrar skógarmála og aðrir hátt settir fulltrúar 38 Evrópulanda og Evrópusambandsins sitja fundinn. Markmiðið er annars vegar að styrkja alþjóðlegt samstarf um skógarmálefni og hins vegar að komast að samkomulagi um næstu skrefin í þessu starfi, að standa vörð um og útbreiða sjálfbæra nýtingu skóganna í Evrópu þannig að varðveita megi og efla þjónustu þeirra við umhverfið, samfélag manna og efnahagslífið.

Allt frá árinu 1990 hefur ráðherrafundurinn um verndun skóga Evrópu, Forest Europe, liðkað fyrir opinni og gagnkvæmri umræðu um stefnu í skógarmálum milli stjórnvalda í Evrópulöndunum, opinberra stofnana, félagasamtaka og einkafyrirtækja. Viðfangsefnin eru ógnir og tækifæri sem snerta evrópska skóga.

Evrópskir skógar: Að berjast við loftslagsbreytingar (og aðlagast þeim)

Skógar Evrópu gegna mikilvægu hlutverki í baráttunni við ýmis úrlausnarefni samtímans, ekki síst loftslagsbreytingarnar. Eftir því sem skógarnir stækka og meðferð þeirra og nýting verður sjálfbærari eykst kolefnisbindingin í lífmassa og jarðvegi skóganna en jafnframt aukast verðmæti þeirra afurða sem úr skógunum fást.

Skógar taka umtalsvert magn koltvísýrings úr andrúmsloftinu. Eins og fram kemur í skýrslunni nýju um ástand evrópskra skóga nemur árleg kolefnisbinding skóga í löndum Evrópusambandsins 719 milljónum tonna á árabilinu 2005-2015. Þar er reiknað með lífmassa í skógi, jarðvegi og afurðum sem framleiddar eru úr því sem skógurinn gefur. Þetta samsvarar um 9% af nettólosun gróðurhúsalofttegunda í Evrópusambandinu.

Skilningur fólks fer vaxandi á hlutverki skóga í baráttunni við og loftslagsbreytingar og aðlögun að þeim. Það endurspegla skógræktaráætlanir í einstökum löndum. Síðustu ár hafa mörg lönd endurskoðað þessar áætlanir sínar og stefnumið og aukið áhersluna á loftslagsbreytingar. Flest Evrópulönd hafa nú komið á fót sérstökum stofnunum eða kerfum sem eiga að sjá til þess að reglur séu innleiddar og hrundið af stað verkefnum og áætlunum um viðbrögð við loftslagsbreytingum, endurnýjanlega orku og orkunýtni.


Framfarir í sjálfbærri skógrækt = framfarir í skógvernd

Til framfara í sjálfbærri skógrækt í Evrópu undanfarinn aldarfjórðung má telja hluti eins og betri skógastjórnsýslu, löggjöf, eftirlit og úttektir, svo eitthvað sé nefnt.

Fjöldi þeirra Evrópulanda sem hafa sett sér landsáætlanir um skógrækt hefur þrefaldast frá árinu 2007. Í þessum áætlunum er jafnan hvatt til þátttöku sem flestra svo aðlögun verði auðveldari og innleiðing nýrrar skógarstjórnsýslu og stefnumiða. Í því sambandi ber að geta þess að víðast hvar í löndum Evrópu hafa verið skrifaðar skýrslur eða skjöl þar sem sett er fram skógarstefna, skógræktaráætlun og annað þess háttar. Þetta á líka við um Ísland. Hér hefur verið lagður grunnur að opinberri skógræktaráætlun með stefnuskjalinu Skógar á Íslandi - Stefna á 21. öld, en þrátt fyrir ítrekaðar óskir og hvatningu skógræktarfólks hafa stjórnvöld hér ekki enn sett sér slíka opinbera skógræktaráætlun.

Auk þess sem að framan er greint hafa yfir 70% Evrópulanda sett sér opinbera áætlun um nýtingu skóga sinna. Það þýðir að yfir 155 milljónir hektara lands í löndum Evrópusambandsins eru skógur þar sem nýtingu er stýrt út frá slíkum áætlunum eða með sambærilegum hætti.

Og eftir því sem þeir skógar stækka sem hirt er um með sjálfbærum hætti því betur er verndun skóglendis í álfunni tryggð. Skógar sem nýttir eru og hirtir með sjálfbærum hætti eru hraustari en illa hirtir eða ofnýttir skógar og eiga betra með að ná sér ef þeir verða fyrir skemmdum eða sjúkdómum. Hraustir skógar eiga líka auðveldara með að laga sig að breyttum aðstæðum.

Enn fremur er vakin athygli á því í skýrslunni um ástand evrópskra skóga 2015 að yfir 30 milljónir hektara skóglendis í álfunni njóta verndar með því meginmarkmiði að standa vörð um líffjölbreytni og ásýnd umhverfisins. Á undanförnum fimmtán árum hefur stærð verndaðra skóga tvöfaldast. Að meðaltali hefur um hálf milljón hektara verið vernduð á hverju ári á tímabilinu.

Mikil efnahagsleg tækifæri vannýtt í skógunum

Efnahagshrunið undir lok síðasta áratugar hafði töluverð áhrif á skógargeirann í Evrópu en nú hefur hann náð sér vel á strik aftur. Í skýrslunni er dregið fram að huga þurfi betur að framleiðni skóganna og hlutverki þeirra í framleiðsluiðnaði. Enn er Evrópa meðal þeirra svæða í heiminum þar sem framleidd eru flest timburígildi. Verðmæti annarra skógarafurða sem ekki eru úr trjáviði skipta líka verulegu máli, sérstaklega heima í viðkomandi byggðarlögum.


Skógar Evrópu leggja efnahagslífinu í álfunni til um 103 milljarða evra á ári. Það nemur um 14.600 milljörðum íslenskra króna eða 0,8 prósentum af samanlagðri þjóðarframleiðslu Evrópulanda. Skógarnir skipta því umtalsverðu máli í efnahag álfunnar en hafa ekki síður samfélagslega þýðingu. Sömuleiðis er áhugavert að geta þess að samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni hefur sú breyting orðið í Evrópu að nú er meira flutt út úr álfunni af timbur- og pappírsvörum en flutt er inn. Þessu var öfugt farið áður.

Að minnsta kosti þrjár milljónir Evrópubúa hafa lífsviðurværi sitt af skógum. Þar er ótalið starf allra þeirra sem sinna ýmiss konar vinnu sem tengist skógum, skógareigendur sem erja skóga sína og almenningur sem leggur sitt að mörkum í heimabyggð sinni. Margt af því sem unnið er í skógunum kemur ekki fram í atvinnuskráningum eða útgefnum hagtölum. Þróunin í átt til græns hagkerfis gefur margvíslega möguleika til frekari eflingar og þróunar skógargeirans. Þar með gefast tækifæri til að búa til ný græn störf.


Yfir 300 manns öfluðu efnis í skýrsluna nýju um ástand skóga Evrópu, sérfræðingar í heimalöndunum, alþjóðlegir sérfræðingar og fleiri. Ríflega 60 manns unnu svo við að skrifa skýrsluna, ritrýna og koma í endanlegt horf. Ritstjórnin var í höndum starfsfólks tengslaskrifstofu Forest Europe í Madríd á Spáni í samvinnu við FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, EFI - skógarmálastofnun Evrópu og JRC - rannsóknarmiðstöð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, auk Hamborgarháskóla (UHH). Skógræktar- og timbursvið UNECE/FAO lagði líka gjörva hönd á plóg við gagnaöflun, úrvinnslu og rýni þeirra gagna sem skýrslan er byggð á.

Texti: Pétur Halldórsson