Rætt við Úlf Óskarsson í Morgunblaðinu í dag

Skógrækt getur dregið úr áhrifum ýmissa náttúruhamfara, sérstaklega þeirra sem tengjast eldgosum og jökulhlaupum. Um þetta er fjallað í Morgunblaðinu í dag og rætt við Úlf Óskarsson, lektor við LbhÍ, sem segir að skógi- eða kjarrivaxið land myndi líklega standast betur hamfarir á við Skaftárhlaup en land sem vaxið væri lággróðri eingöngu.

Þetta sama gildir um öskufall eins og sýndi sig í Eyjafjallajökulsgosinu 2010. Eitt meginmarkmið Hekluskógaverkefnisins er að rækta birkiskóga sem koma í veg fyrir uppblástur eftir öskugos úr Heklu.

Auðvelt er að rökstyðja að skynsamlegt sé að ráðast í stórtæk skógræktarverkefni á gosbelti Íslands, ekki síst í ljósi reynslunnar af gosinu í Eyjafjallajökli. Árangurinn af Hekluskógaverkefninu sýnir líka að þrátt fyrir að land sé mjög snautt má ná skjótum árangri og breyta ásýnd landsins úr svartri í græna á fáeinum áratugum. Ljóst er að aurinn sem lagðist yfir stór svæði í Skaftárhlaupinu á dögunum getur átt eftir að fjúka til og valda frekara tjóni. Ef allt það svæði hefði verið vaxið skógi eða kjarri næði vindurinn ekki að rífa fokgjarnan leirinn upp en í staðinn myndi hann nýtast sem næring fyrir skóginn.

Þjórsárdalur

Uppgræðsla örfoka svæða á gosbeltinu hefði margvíslegan ávinning í för með sér. Ef þessar auðnir væru græddar upp með birkiskógi mætti gera ráð fyrir umtalsverðri kolefnisbindingu sem myndi reiknast inn í kolefnisbúskap Íslands. Með því að rækta gjöfulli tegundir gæti bindingin orðið tvöfalt meiri að minnsta kosti.

Víða eru svæði sem hægt er að hugsa sér að sátt næðist um ræktun slíkra nytjaskóga á gosbeltinu, ekki síst með lerki sem fellir barrið og breytir ásýnd landsins því litlu meira en birki. Á bestu svæðunum væri skynsamlegt að huga að ræktun sígrænna tegunda.

Barrskógarnir í Þjórsárdal eru gott dæmi um þann árangur sem hægt er að ná. Þar fer viðartekja hratt vaxandi og sífellt meira er flett af timbri og búinn til smíðaviður.

Guðni Einarsson blaðamaður skrifar umfjöllun Morgunblaðsins um skóg og Skaftárhlaup í blaðinu í dag. Hún er á þessa leið:

   Skógi- eða kjarrivaxið land myndi líklega standast betur hamfarir á við Skaftárhlaup, en land þar sem er lávaxinn gróður eins og grös, lyng og mosi. Þetta er mat Úlfs Óskarssonar, lektors við Landbúnaðarháskóla Íslands. Sérsvið hans eru skógrækt og landgræðsla.
    Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri hefur sagt að nauðsynlegt sé að bregðast við gríðarmikilli gróðureyðingu, sandfoki og svifryksmengun í Skaftárhreppi í kjölfar hlaupsins.
    Úlfur segir reynsluna sýna að svæði sem fá yfir sig eldfjallaösku standi það miklu betur af sér ef gróðurinn er hæfilega hávaxinn. Þetta á sérstaklega við þar sem er skóg- eða kjarrlendi.
    „Þá fýkur efnið ekki til heldur er það í skjóli í sverðinum,“ sagði Úlfur. Hann telur að á sama hátt skipti það máli þar sem jökulaur fer yfir land að gróðurinn sé hávaxnari en grös, lyng eða mosi. Sé skógur eða kjarr á svæðinu fái jökulleirinn, sem er mikil uppspretta ryks, skjól af gróðrinum.
    „Skógur er varanlegt skjól,“ sagði Úlfur. „Hann gefur líka skjól á veturna þegar annar gróður sölnar og fellur og veitir ekki skjól. Skógur eða kjarrlendi, t.d. skógur sem ræktaður er til nytja, væri ákjósanlegur á þeim stöðum þar sem við getum búist við svona áfalli.
    „Úlfur sagði að sandurinn og leirinn sem jökulhlaupin bera með sér væru jarðvegsbætandi. Jarðvegurinn þykknaði þar sem efnin bættust við. „Þetta er ósúrt, næringarríkt efni sem yngir upp jarðveginn. Svona efni er einkennandi fyrir jarðveginn á Íslandi. Hann er búinn til úr þessum eldfjallaefnum sem fjúka til og eru upprunnin úr basalti.
    „Mikill kraftur er í flóðvatni sem geysist fram. Úlfur segir að mjög líklega láti skógar undan miklum straumi. Þeir standist hann þó líklega betur en lágvaxinn gróður. Þar sem gróður er lágvaxinn er mun meiri hætta á jarðvegsrofi og að jarðvegurinn fljóti burt en sé gróðurinn hávaxinn. Þótt tré kunni að brotna eru minni líkur á að jarðvegurinn rofni þar sem þau vaxa. Rótarkerfi trjánna er miklu sterkara en rætur lággróðursins og standast áraunina betur.
    „Við höfum séð á Íslandi hvernig flóð geta farið með skóga. Yfirleitt standa þeir af sér mikil flóð. Það er helst ef ísrek kemur með flóðum að það skemmi börk trjánna. Trén þola yfirleitt ágætlega að það standi vatn á þeim hluta ársins,“ sagði Úlfur.

Askan var eins og áburður

   Góð reynsla af áhrifum gosösku á tré fékkst í Þórsmörk þegar gaus í Eyjafjallajökli 2010. „Skógurinn stóð það ákaflega vel af sér, jafnvel þótt þar félli aska með bleytu sem sligaði trén,“ sagði Úlfur. „Skógurinn náði sér mjög hratt. Í raun varð aukin gróska í skóginum eftir öskufallið sem var líkt og áburðargjöf.“ Hann taldi að þar hefði kalíum og fosfór í öskunni skipt máli. Á svæðum þar sem var ekkert skjól skemmdi askan hins vegar lággróðurinn. Hún fauk þar um og svarf gróðurinn líkt og sandblástur. Ástandið lagaðist ekki nema þar sem gróður óx upp úr öskunni.
    En er mögulegt að rækta skjólbelti til að skýla landi fyrir flóðum eins og Skaftárhlaupum?
    „Það myndi kannski ekki breyta miklu varðandi flóðin. Þau færu í gegnum þetta allt,“ sagði Úlfur. „En skjólbelti myndu draga úr vindi og foki leirs og sands ef þau væru til staðar.“

Texti: Pétur Halldórsson