Mynd af greininni í hollenska blaðinu De Trouw sem birtist 30. september 2015.
Mynd af greininni í hollenska blaðinu De Trouw sem birtist 30. september 2015.

Viðtal við Aðalstein Sigurgeirsson og Björn Guðbrand Jónsson í dagblaðinu De Trouw

Orðspor íslenskrar skógræktar hleypur víða. Fyrir rúmum mánuði, 30. september, birtist í víðlesnasta dagblaði Hollands, De Trouw, viðtal við Aðalstein Sigurgeirsson, forstöðumann Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, og Björn Guðbrand Jónsson, framkvæmdastjóra samtakanna Gróðurs fyrir fólk. Blaðamaður þessa blaðs, Jurriaan Eerten, var á ferð hér á landi í lok ágúst í sumar og ræddi þá við þá Aðalstein og Björn um gróðurfarssögu Íslands frá landnámi og þá skógrækt sem hér hefur verið stunduð í landinu í rúma öld.

Greinin birtist í kálfi blaðsins um náttúru og sjálfbærni, Natuur & duurzaamheid. Fyrirsögnin á hollensku er Herbebossing op IJsland sem gefur til kynna að greinin sé um ræktun skóglendis á Íslandi í stað skóganna sem hurfu. Hér er greinin lauslega þýdd yfir á íslensku.


Endurheimt skóga á Íslandi


Þegar norrænir menn námu land á Íslandi á níundu öld tóku þeir að höggva og brenna skóglendi landsins. Það rofna land sem af þessu hlaust er víti til varnaðar. Svona geta verk mannanna haft áhrif á umhverfið.

Eðlilegt er að fólk sem kemur til Íslands nú skuli ekki átta sig á því að svona hafi landið ekki alltaf litið út. Kalt loftslagið og ískaldur vindurinn í norðrinu, rétt sunnan við heimskautsbaug, hljóti að gera að verkum að landið sé að mestu ein norðurslóðaauðn með mosavöxnu grjóti og harðgerum jurtum á stangli eins og lambagrasi og maríustakki. En þegar norskir landnámsmenn settust að á Íslandi var þriðjungur landsins vaxinn birkiskógi og birkikjarri. Það sem á eftir kom var vistfræðileg martröð sem landið hefur ekki náð sér af síðan.

Í fornritum Íslendinga er skógum lýst og frá því sagt að landið hafi verið „viði vaxið milli fjalls og fjöru“. Hetjur sagnanna hafi stundum villst í skógunum. Örnefni bera þessu vott víða þar sem ásýnd landsins er nú alltönnur. Þar sem heitir Stóriskógur, Skógafoss og Tröllaskógur er skógurinn horfinn og varla trjágróður sjáanlegur.

Norrænu landnemarnir tóku með sér svín, nautgripi og sauðfé til landsins. Fyrir var aðeins ein tegund spendýra, heimskautarefurinn. Kolaðar trjáleifar í jörðu sýna vel að fornmennirnir hjuggu og brenndu skóginn til að gera landið hentugra til búfjárræktar. Þeir skógar sem ekki voru ruddir til ræktunar voru höggnir til eldiviðar og járnvinnslu með rauðablæstri. Fornleifar sem grafnar hafa verið upp í Reykjavík sýna að rétt eftir landnám hafi svín verið uppistaðan í bústofni landsmanna en jarðvegurinn var snauður og stóð ekki undir svínaræktinni þannig að smám saman urðu Íslendingar aðallega sauðfjárbændur. Sauðfé er sólgið í nýgræðing birkis og því náðu skógarnir ekki að endurnýjast. Þess vegna er Ísland ekki lengur viði vaxið.

Roföflin eiga líka sinn þátt í því hvernig ásýnd Íslands er nú. Eldgosajarðvegurinn er steinefnaríkur en á móti kemur að lífsnauðsynleg næringarefnin skolast auðveldlega burt með regnvatninu og hripa niður í gljúpt eldfjallayfirborðið. Þá feykir vindurinn burt fíngerðum sandi sem gróðurrætur hafa ekki náð að binda. Þetta landslag sem minnir á tunglið er vandasamt að græða upp með skógi.

„Þegar ég kom aftur til starfa hjá Skógrækt ríkisins fyrir aldarfjórðungi eftir nám í Kanada og Svíþjóð, áleit fólk mig geggjaðan að vilja standa í því að rækta hér tré,“ segir Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá. „Fólk vildi ekki trúa því að skógur gæti þrifist hérna og sá engan hag af skógrækt fyrir þjóðina. En ég hef alltaf stuðst við kínverska máltækið sem segir: Besti tíminn til að gróðursetja tré var fyrir tuttugu árum.“

Og Aðalsteinn reynist hafa haft á réttu að standa á sínum tíma. Verksmiðja sem framleiðir kísilmálm í sólarsellur notar nú timbur við framleiðslu sína. Það hefur gert að verkum að aukin ræktun barrskóga er orðin vænleg fjárfesting. En það þýðir þó ekki að menn stökkvi til hindrunarlaust og auki skógrækt í landinu. Raddir heyrast sem óttast að útsýni spillist og ímynd Íslands sem ferðamannalands spillist.

„Gagnrýnendur nefna ætíð skóg á Suðurlandi [á Rangárvöllum, við þjóðveg 1] í grennd við Heklu,“ segir Aðalsteinn. „Ég hef ekið þangað frá Reykjavík og séð að útsýnið mun eftir nokkur ár hverfa nákvæmlega í eina mínútu og það er nærri tveggja tíma akstur frá þeim stað til Reykjavíkur.“

Árið 1907 voru samþykkt á Alþingi lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands og önnur lög hafa fylgt í kjölfarið með ákvæðum um girðingar til varnar skógum gegn ágangi búfjár. Frá því um aldamót hafa bændur haft aðgang að styrkjum frá ríkinu til skógræktar á landi sínu. En þrátt fyrir rúmlega aldarlangt skógræktarstarf eru einungis um 1,5% landsins aftur orðin skógi vaxin. Fjárveitingar til skógræktar minnkuðu hastarlega í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 og um leið skriðþungi skógræktar í landinu.

Björn Guðbrandur Jónsson starfar fyrir samtökin Gróður fyrir fólk. Hann segist upplifa andstöðu fólks við þróun skóganna. „Það er undarlegt hvað fólk er hrifið af eyðimörkinni í þessu landi,“ segir hann. „Vandamálið er að jarðvegurinn fýkur í burtu og rofið heldur áfram ef við gerum ekkert í málinu.“

Björn Guðbrandur ekur gjarnan með nemendahópa rétt út fyrir Reykjavík til gróðursetningar í eyðimörkinni norðlægu. Í áburðarlag úr hrossaskít eru gróðusettar þær tegundir sem upphaflega uxu í landinu, birki, víðitegundir og reyniviður.

„Stuðningur stjórnvalda við starf okkar er af skornum skammti,“ segir Björn Guðbrandur. „Stjórnmálamenn eru skammsýnir og hugsa bara um atkvæðin í næstu kosningum. Endurhæfing íslenskrar náttúru er hins vegar langtímaverkefni.“

Bandaríski rithöfundurinn Jared Diamond lýsir í bók sinni um hrun, Collapse, þeim þáttum sem geti stuðlað að hruni samfélags. Þar á meðal er eyðilegging umhverfisins. Jared nefnir til dæmis byggðir norrænna manna á Grænlandi og Íslandi sem hafi komið sér í vandræði á eigin spýtur með eyðingu skóganna. Byggðin á Grænlandi lagðist af en á Íslandi þraukaði veikburða hagkerfi allt til tuttugustu aldarinnar þegar þjóðin kom undir sig fótunum með öflugum sjávarútvegi.

Í stuttu máli hafi hinir norrænu menn verið fljótir að gera umhverfið fjandsamlegt sér með lífsháttum sínum. Það ætti samkvæmt Diamond að vera heimsbyggðinni víti til varnaðar á tímum loftslagsbreytinga. Sömuleiðis séu hraðfara merki um loftslagsbreytingar mjög sýnileg á Íslandi þar sem jökuljaðrar hopi hratt. Ferðamaður sem horfir á ísjaka fljóta í átt til sjávar á Jökulsárlóni upplifir beina afleiðingu af hlýnun jarðar. Þarna hafi jökulsporðurinn náð til sjávar á fjórða áratug síðustu aldar og ekkert lón verið.

Fyrir utan skrifstofu sína skammt frá Reykjavík bendir Aðalsteinn Sigurgeirsson á linditré. Að þetta skuli vaxa á Íslandi sé líka merki um hlýnun jarðar. Fram undan sé að gera tilraunir með ræktun eikartrjáa. Undanfarin ár hafi líka sest að á Íslandi nýjar fuglategundir svo sem glókollur og skógarsnípa, tegundir sem þrífist vel á skógræktarsvæðum.

Þessu síðastnefnda fagnar Aðalsteinn og segir þetta merki um að náttúran sé að vakna til lífsins [eins og fuglinn Fönix]. Hann vísar á bug hugsanlegum neikvæðum áhrifum skógræktarinnar á ferðaþjónustuna. „Á þessari eyju verður alltaf nóg af eldfjöllum og fossum fyrir fólk til að dást að og þessi fyrirbæri munu áfram laða fólk til landsins. Auk þess reyndist það mun auðveldara að eyðileggja skóginn sem fyrir var en að rækta upp nýjan. Og það er seint að iðrast þegar allur skógurinn er horfinn.“

Texti: Pétur Halldórsson