Jón Loftsson á svipuðum stað í Mjóanesi á Héraði með tæplega aldarfjórðungs millibili. Skógurinn í b…
Jón Loftsson á svipuðum stað í Mjóanesi á Héraði með tæplega aldarfjórðungs millibili. Skógurinn í baksýn á eldri myndinni er sá sem Jón stendur í á þeirri yngri. Þar er hann á spjalli við skoska skógfræðinginn Roger Lines.

Horfir um öxl, vöxtur þar

Jón Loftsson skógræktarstjóri fagnar sjötugsafmæli sínu í dag, 2. desember. Starfsfólk Skógræktar ríkisins óskar honum til hamingju með daginn og óskar alls hins besta með skemmtilegum myndum sem birtast í væntanlegu dagatali Skógræktar ríkisins 2016. Stef dagatalsins eru myndir sem sýna tré og skóga fyrr og nú.

Jón Loftsson sést hér á svipuðum stað í Mjóanesi á Héraði með tæplega aldarfjórðungs millibili. Skógurinn í baksýn á eldri myndinni er sá sem Jón stendur í á þeirri yngri. Sú eldri er tekin meðan Jón var skógarvörður á Hallormsstað og með honum stendur Roger Lines frá Skotlandi, helsti sérfræðingur heimsins í stafafuru. Myndina tók Sigurður Blöndal sem þá var skógræktarstjóri.

Meiningin var að afmæli Jóns yrði fagnað í kvöld að lokinni skógræktarráðstefnu sem átti að halda í Valaskjálf á Egilsstöðum. Vegna slæmrar veðurspár varð að fresta ráðstefnunni fram yfir áramót. Jón fagnar því afmæli sínu í dag án margra þeirra ráðstefnugesta sem hugðust vera eystra en komust ekki. Ráðstefnan verður væntanlega haldin um miðjan janúarmánuð og verður dagsetningin tilkynnt fljótlega. Að ráðstefnunni lokinni verður kveðjuhóf Jóns sem lætur af embætti um áramótin eftir 26 ára starf sem skógræktarstjóri.

Hallgrímur Indriðason, skipulagsfulltrúi Skógræktar ríkisins og samferðamaður Jóns á starfsvettvangi, orti eftirfarandi kvæði í morgun til afmælisbarnsins á gönguskíðunum á leið sinni til vinnu:

Jón Loftsson sjötugur


Ber hönd að augum
horfir til skógar
horfir um öxl
vöxtur þar.

Sér að Sandfelli
silfur í vöngum
sæll máttu vinur
við una.

Texti: Pétur Halldórsson
Eldri ljósmynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir
Eldri ljósmynd: Sigurður Blöndal
Ljóð: Hallgrímur Indriðason