Þetta segir forsætisráðherra nýkominn af loftslagsráðstefnunni í París

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að ýmis skref verði tekin hérlendis í loftslagsmálum. Ísland taki þátt í 40% markmiði Evrópulanda og ætli bæði að draga úr losun og auka bindingu. Átak verði gert til að skipta um orkugjafa í samgöngum og skipum og aukið fjármagn sett í landgræðslu, skógrækt og votlendi.

Rætt var við Sigmund Davíð í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hann er nýkominn heim frá loftslagsráðstefnunni sem nú stendur yfir í París. Þar var hann í hópi 150 þjóðarleiðtoga sem kynntu áherslur landa sinna hver fyrir sig í stuttri ræðu á mánudag, fyrsta dag ráðstefnunnar.

Sigmundur sagði að mikill samhljómur hefði verið með nánast öllum þjóðarleiðtogum, öðruvísi en var á Kaupmannahafnarfundinum 2009. Þar hafi menn haft miklar væntingar en orðið fyrir miklum vonbrigðum með hvað árangurinn varð lítill. Vegna þess hvernig fór í Kaupmannahöfn óttast margir að það sama geti gerst nú og því var Sigmundur Davíð spurður að því hversu líklegt hann teldi að samstaða næðist nú. Hann svaraði á þessa leið:

„Það virtist nú vera furðu mikil samstaða um að þetta þyrfti að vera bindandi og frá báðum hliðum þ.e.a.s. bæði fulltrúum þróaðri ríkjanna og þróunarlandanna. Menn auðvitað gera sér grein fyrir því að það er afskaplega lítið hald í einhverjum viðmiðunum. Þegar tíminn líður og og það er skipt stjórnvöld í þessum ríkjum og hlutirnir breytast til og frá þá er alltaf hætt við að viðmið verði lítils virði. Þannig að menn vilja ná lendingu með raunverulegum skuldbindingum og skýrum markmiðum.“

Sigmundur var einnig spurður út í þau skref sem íslensk stjórnvöld hygðust taka í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og þar minntist hann meðal annars á skógrækt sem mikilvæga aðgerð.


„Ja, við tökum ýmis skref. Í fyrsta lagi verðum við þátttakendur í þessu 40 prósenta markmiði með Evrópulöndunum, en auk þess erum við að fara í ýmsrar aðgerðir sjálf, bæði til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en líka til þess að binda þær betur. Við munum fara í átak við það að fara í orkuskipti í samgöngum, bílum og skipum reyndar líka, en einnig setja aukið fjármagn í landgræðslu, skógrækt, votlendi er mikilvægt í þessu samhengi líka, menn þurfa að skoða það hvort það sé hægt að endurheimta votlendi á vissum stöðum. Þannig að þetta á að haldast í hendur, bæði að draga úr losun og auka bindingu.“

Í dag er fjórði dagur loftslagsráðstefnunnar í París. Hún stendur að minnsta kosti fram á föstudag í næstu viku sem er 18. desember en gæti dregist á langinn enda mikilvægt að ljúka henni með árangursríkum hætti. Sigmundur Davíð segir að menn vonist til að til verði samningur milli þjóða heims sem skipti verulega máli.

„Það er reyndar flókin vinna fram undan. Menn taka sér tíu daga í það, samninganefndir þessara 150 eða fleiri ríkja, að koma sér saman um texta sem allir geta sætt sig við. En það er meiri bjartsýni núna en verið hefur lengi,“ segir Sigmundur. Hann segist leyfa sér að vera bjartsýnn og telur að menn þurfi að vera vongóðir. Hann segir það jákvætt við þá miklu athygli sem ráðstefnan hefur fengið að þar með verði erfiðara fyrir lönd að vera á móti samkomulagi. Því muni menn teygja sig lengra en áður.

Texti: Pétur Halldórsson