Erindi sem flutt voru á Landsýn, fræðaþingi landbúnaðarins, föstudaginn 7. mars eru nú aðgengileg á vef Landbúnaðarháskóla Íslands. Hlýða má á erindin og sjá glærurnar sem fyrirlesarar notuðu máli sínu til stuðnings.
Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og verkefnisstjóri Hekluskóga, segir í viðtali í Morgunblaðinu í dag, 10. mars, að gróðurframvinda sé töluverð á starfsvæði Hekluskóga. Rúmlega tvær milljónir trjáplantna hafa verið gróðursettar fram að þessu.
Sitkagreni er umdeild trjátegund í Noregi og harðasta náttúruverndarfólk vill að henni verði útrýmt enda sé þetta ágeng erlend tegund og ógni meðal annars viðkvæmum svæðum með náttúruverndargildi. Skógræktendur eru hins vegar á öðru máli og vilja nota sitkagrenið áfram enda afkastamikil tegund sem gefur verðmætan trjávið, léttan en sterkan. Fjallað er um þetta í bæklingi frá landbúnaðarsviði fylkisstjórnarinnar á Hörðalandi.
Hlynur Sigurðsson, starfsmaður Héraðs- og Austurlandsskóga, hefur sett saman fróðlegt myndband um skógartækjasýninguna Elmia Wood sem nokkrir íslenskir skógarmenn sóttu í fyrra.
Ofbeit geita og sauðfjár eyddi nær öllum upprunalegum gróðri á eyjunni San Clemente í Kyrrahafi, úti fyrir Kaliforníuströndum. Eyjan hefur nú náð sér vel á strik eftir að beit var aflétt.