Morgunblaðið ræðir við skógarvörðinn á Suðurlandi

„Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og verkefnisstjóri Hekluskóga, gjóar augunum oft á dag í átt að Heklu. Hann hefur veitt litlum skjálftum í fjallinu athygli og veit af því að landið í fjallinu hefur hækkað að norðaustanverðu. Hann vonar innilega að ekki fari að gjósa, en fari svo segist hann alveg vera til í að taka myndir af upphafinu.“ Þannig hefst frétt með viðtali við Hrein í Morgunblaðinu í dag, 10. mars. Fram kemur að Hekluskógaverkefnið hafi hafist af krafti 2007 og búið sé að setja niður rúmar tvær milljónir birkiplantna þar sem meiningin er að endurheimta birkiskóga og birkikjarr kringum eldfjallið. Eftir hrun hafi hægst á og ekki sé útlit fyrir að upphaflegt markmið náist um að ljúka verkefninu á 40-60 árum. Nær sé að áætla 150 ár í þetta miðað við hraða verkefnisins nú. En Hreinn segir að birkið vaxi vel og gróðurframvindan hafi komið á óvart. Birkið vaxi líka vel langt inn fyrir Hrauneyjar og upp í 600 metra hæð. Gróðursett er í bletti sem þegar hafa verið græddir upp að einhverju marki með grösum. meiningin er svo að birkið breiðist út frá þessum blettum og þeki svæðið í fyllingu tímans. Dálítið er sett niður af reynivið líka og þannig er endurheimt skóglendi líkt því og óx á svæðinu að fornu. Hreinn sagði frá Hekluskógaverkefninu á Landsýn, fræðaþingi landbúnaðarins, sem fram fór á Hvanneyri á föstudag.

Sjá Morgunblaðsgreinina hér