Dæmisaga um velheppnaða vistheimt á eyju

Mörg dæmi eru á Íslandi um skjóta endurheimt öflugs gróðurlendis þegar landsvæði hafa verið friðuð fyrir beit. Þórsmörk er gjarnan nefnd í því sambandi. En eyjan San Clemente í Kyrrahafi er líka augljóst sannindamerki um beint samhengi ofbeitar og gróðureyðingar. Þar hefur upprunalegur gróður eyjarinnar náð sér mikið eftir að grasbítum var útrýmt þar endanlega árið 1993.

Á 19. öld fluttu menn geitur og sauðfé fyrst til eyjarinnar San Clemente sem liggur í Kyrrahafi, vestur af borginni Los Angeles í Kaliforníu. Sökum þess að engin rándýr voru til staðar á eyjunni né aðrar þær aðstæður sem haldið gátu aftur af stofnum þessara tegunda, óx fjöldi villtra geita og sauðfjár eftir veldisfalli. Um tíma gengu 10.000 villtar sauðkindur og 12.000 geitur á eynni. Þessir stóru stofnar grasbíta eyddu skjótt upprunalegum gróðri eyjarinnar og umbreyttu áður fjölbreyttum runnagróðri í uppblásnar klappir, kaktusgróður - sem grasbítarnir sneyddu hjá - og grasvelli framandi grastegunda sem þoldu betur beitarþungann en hinn náttúrlegi gróður. Útbreiðsla trjáa og runna takmarkaðist eftir það við þau svæði þar sem geitur eða kindur komust ekki að vegna bratta, svo sem við gljúfur eða þverhnípta kletta. Árið 1973 hóf bandaríski herflotinn (sem ræður yfir eynni) að útrýma þessum óboðnu, villtu grasbítum. Tókst þeim það ætlunarverk á næstu áratugum og var útrýmingunni að fullu lokið árið 1993.

http://www.recon-us.com/services/biological-res/san_clemente_island/san_clemente_history.php