Fræðaþing landbúnaðarins tókst vel og aðsókn var góð

Erindi sem flutt voru á Landsýn, fræðaþingi landbúnaðarins, föstudaginn 7. mars eru nú aðgengileg á vef Landbúnaðarháskóla Íslands. Hlýða má á erindin og sjá glærurnar sem fyrirlesarar notuðu máli sínu til stuðnings.

Fræðaþingið var vel sótt og þótti heppnast mjög vel. Vel á annað hundrað manns skráði sig til þátttöku enda var margt áhugaverðra fyrirlestra í boði. Málstofurnar voru fjórar og þar af ein um Skógrækt á rofnu landi. Þar ræddi Björn Traustason, landfræðingur hjá Rannsóknastöðinni á Mógilsá, um umfang lítt og hálfgróinna svæða neðan skógarmarka á Íslandi. Í máli hans kom meðal annars fram að ef meðalhiti á Íslandi hækkaði um tvær gráður yrði nánast allt landið neðan skógarmarka.

Brynhildur Bjarnadóttir, skógfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri, ræddi um jarðvegsöndun frá skógarbotni og sagði frá rannsókn sinni í lerkiskógi á Austurlandi þar sem mæld var kolefnisútöndun frá bæði skógi og öðrum vistgerðum. Meðal annars komst hún að því að á gróðurlausum melum á rannsóknarsvæðinu væri enn nokkurt kolefnistap sem sýndi að þar undir væri enn lífrænt efni að brotna niður.

Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, greindi frá gangi Hekluskógaverkefnisins og tíundaði þann mikla árangur sem þar hefur náðst nú þegar. Hann nefndi meðal annars að vegna samdráttar í framlögum myndi verkefnið taka 150 ár að óbreyttu en ekki 40-60 ár eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

Daði L. Friðriksson hjá héraðssetri Landgræðslunnar á Húsavík sagði frá landgræðsluskógrækt í Þingeyjarsýslum og varpaði meðal annars upp ljósmyndum sem sýndu glögglega mikinn árangur. Meðal annars sást vel á myndum hans hversu miklum árangri má ná með nytjaskógrækt á berum melum og söndum.

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LBHÍ, sagði frá lifun og vexti mismunandi trjátegunda á melum og í lúpínubreiðum. Hann tíundaði ræktunartilraunir sem hann hefur gert á snauðum melum í Hofsnesi í Öræfum og gefið hafa forvitnilegar niðurstöður. Athyglisverðustu niðurstöðurnar fyrir skógrækt á rýru landi eru þær að smáskammtur af áburði við gróðursetningu bar betri árangur þó að gróðursett væri inni í lúpínubreiðum. Einnig kom nokkuð á óvart hversu miklu betur gekk með ræktun jörfavíðis en allra annarra tegunda sem reyndar voru.

Loks talaði Halldór Sverrisson, skógfræðingur á Rannsóknastöðinni á Mógilsá, um belgjurtir og aðrar niturnámsplöntur til notkunar í landgræðsluskógrækt og benti meðal annars á fjölblaðalúpínu sem vænlegan kost fyrir skógræktendur. Sú tegund byndi nitur eins og alaskalúpínan en væri lágvaxnari og kæfði því síður litlar trjáplöntur.

Fyrir allt ræktunarfólk voru líka áhugaverðir fyrirlestrar í málstofu sem kallaðist Landlæsi. Þar voru fulltrúar Landgræðslu ríkisins ómyrkir í máli og töluðu um að allt of hægt gengi að beina landnotkun á Íslandi í sjálfbærari átt. Landgræðslan hefði alla tíð verið í minnihluta í ítölunefndum og ekki náð fram kröfum sínum um betra beitarskipulag og verndun illa farinna landsvæða. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri talaði um að vaninn væri erfiðasta viðfangsefnið. Illa gengi að fá fólk til að breyta út af gömlum venjum um hvernig skepnum er beitt, til dæmis um upprekstur að vori og smölun að hausti. Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskólann, talaði líka um að vanþekking á ásandi landsins væri eitt stærsta vandamálið. Og svo var að skilja á frummælendum að Íslendingar væru ekkert betri í þessum efnum en fólk í þeim fátæku löndum sem senda hingað nema í Landgræðsluskólann, löndum eins og Namibíu, Úganda og Mongólíu. Alls staðar væri meginvandinn að ná fólki úr viðjum vanans.

Hér fyrir neðan eru hlekkir á málstofurnar sem haldnar voru á fræðaþingi landbúnaðarins. Athugið að gott getur verið að skipta yfir í annan vafra, til dæmis Google Chrome eða Firefox ef illa gengur með Windows Explorer.

Landlæsi og Skógrækt á rofnu landi

Velferð dýra

Ferðamál og dýr – Landbúnaðartengd ferðaþjónusta

Mynd með grein efst á síðu: Daði Lange Friðriksson





Frá Hvanneyri
Mynd: Wikimedia Commons - Bromr