Verðmæt auðlind en umdeild trjátegund í Noregi

í bæklingi sem landbúnaðarsvið fylkisstjórnarinnar á Hörðalandi í Noregi gaf út er fjallað um gildi sitkagrenis í nytjaskógrækt, hvernig tegundin klæddi berangursleg svæði á vesturströndinni skógi og skapaði bæði skjól og verðmæta auðlind. Sitkagreni er hins vegar umdeild trjátegund í Noregi og harðasta náttúruverndarfólk vill að henni verði útrýmt en í bæklingnum er saga ræktunarinnar rakin og bent á leiðir sem ættu að geta sætt bæði sjónarmiðin, sjónarmið verndunar og sjónarmið nýtingar.

Í bæklingnum er rakin forsaga þess að farið var að rækta sitkagreni, einkum á bersvæðum við vesturströnd Noregs þar sem landbúnaður var á undanhaldi um miðja síðustu öld og byggðin í hættu. Menn sáu tækifæri í því að rækta trjátegund sem þoldi vindinn og særokið við ströndina en gaf líka af sér dýrmætan við. Þetta var ekki síst freistandi þar sem byggingarefni var á þessum tíma af skornum skammti í kjölfar stríðsins. Í stað kvikfjárræktar sáu menn fyrir sér að gæti komið skógrækt sem gæfi af sér tekjur en breytti líka hrjóstrugum svæðum í skjólsælar byggðir.

Sitkagreni er amerísk tegund en var flutt til Vestur-Evrópu á 19. öld og vex þar nú á rúmri milljón hektara lands. Tegundin er vottuð til nota í byggingariðnaði, bæði í Noregi, Danmörku, Skotlandi og víðar, enda ljómandi smíðaviður, léttur og sterkur. Skógræktarfólki í Noregi þykir umræðan um sitkagrenið ósanngjörn og meðal annars þurfi að líta til þessarar sögu tegundarinnar í Noregi þar sem fólk á skóglausum svæðum sýndi viðleitni til að bjarga sér í allsleysinu eftir stríðið. Núorðið þarf að sækja um leyfi til að nota sitkagreni í skógrækt í Noregi en í samhenginu við loftslagsbreytingar er sitkagrenið mjög nytsamleg tegund, bindur mikið kolefni, til að mynda tíu sinnum meira en birkiskógur.

Í bæklingnum er sem fyrr segir farið yfir leiðir sem taldar eru geta sætt bæði sjónarmiðin, sjónarmið andstæðinga sitkagrenisins og skógareigenda sem vilja nýta tegundina. Bæði eigi að vera hægt að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar sitkagrenis í norskri náttúru og hafa arð af þessari afkastamiklu tegund.

Hér fyrir neðan er, fyrir þau allra áhugasömustu, lausleg þýðing og lítils háttar staðfærsla á efni bæklingsins frá landbúnaðarsviði fylkisstjórnarinnar á Hörðalandi í Noregi. Neðst eru tenglar á vefsíður með meiri fróðleik og upplýsingar um hvernig komast má í samband við útgefanda bæklingsins.


 

Sitkagreni

Verðmæt auðlind
- en umdeild trjátegund

Náttúrleg vaxtarsvæði sitkagrenis, Picea sitchensis, eru á vesturströnd Norður-Ameríku. Tegundin hefur undanfarna öld mikið verið notuð í skógrækt í Evrópu, allt frá Frakklandi norður til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs, út til Bretlandseyja og Íslands.  Áætlað er að sitkagreni hafi verið gróðursett í 1,2 milljónir hektara lands í þessum löndum.  Þetta er dæmigerð strandtegund sem þolir vel bæði vind og seltu. Hún er hins vegar viðkvæmari fyrir þurrki og frosti.

Í Noregi er sitkagreni mest notað í skógarreiti næst vesturströndinni, á svæðum sem skipulögð voru til skógræktar upp úr miðri síðustu öld. Á nokkrum stöðum hefur tegundin verið gróðursett í skógarjöðrum, skjólbeltum og sem stök tré hér og þar. Þessi tré eru nú orðin stór og eigendur þeirra gjarnan farnir að huga að því að fjarlægja þau.

Sitkagrenið er umdeild tegund í Noregi og náttúruverndarfólk hefur barist gegn notkun þess. Á hinum endanum eru skógareigendur sem benda á gagnið og arðsemina sem hafa má af ræktun sitkagrenis, umfram til dæmis innlendar norskar grenitegundir. Landbúnaðarsvið fylkisstjórnarinnar á Hörðalandi í Noregi hefur gefið út bækling þar sem fjallað er um kosti og galla sitkagrenisins og gefnar ráðleggingar um notkun þess, nýtingu eldri skóga og hvernig draga megi sem mest úr þeim neikvæðu áhrifum sem andstæðingar tegundarinnar  halda á loft.

Sagan

Á öðrum áratug 20. aldarinnar var voru skógfræðingar í Vestur-Noregi farnir að líta í kringum sig eftir trjátegund sem hægt væri að nota til skógræktar á stórum skóglausum svæðum út við ströndina, tegund sem reynst gæti betur en birki og innlendar furu- og grenitegundir. Þarna er loftslag um margt líkt því sem er í heimkynnum sitkagrenisins í Alaska og þetta gildir ekki bara í Vestur-Noregi heldur líka lengra norður með Noregsströndum. Fræ var keypt að vestan og plöntur aldar. Fljótlega sást að sitkagrenið þreifst sérlega vel við vesturströndina, sérstaklega út til eyja, á rótgrónum flatlendissvæðum og í hlíðum inn með fjörðum. Innst í fjörðunum gat hins vegar verið of þurrt fyrir tegundina. Sitkagreni var fyrst flutt til Evrópu á fjórða áratug 19. aldar og fyrstu trén voru sett niður í Noregi upp úr 1880.

Fyrir 50-60 árum var mjög lítill skógur út við strönd Vestur-Noregs. Þarna voru hrjóstrug og berangursleg svæði, berskjölduð fyrir vindinum og lítið um eldivið. Landbúnaður dróst saman og hörfaði víða frá strandsvæðunum. Þarna voru hins vegar góðir möguleikar til skógræktar og verð var hátt á timbri og beðmi. Norska stórþingið samþykkti árið 1951 að hentugustu svæðin skyldu skipulögð til skógræktar. Þar vakti fyrir mönnum bæði að styrkja efnahagslegan grundvöll byggðanna en líka að skapa skjól á svæðum þar sem landbúnaður var á undanhaldi. Landeigendum var boðið að gróðursetja í land sitt og styrkir voru í boði til að ræsa fram mýrlendi, bæði frá ríki og sveitarfélögum. Samhliða var komið á embættum skógarvarða og skógræktarráðunauta sem skyldu fara fyrir ræktunarstarfinu. Þar með var nýrri stoð skotið undir landbúnaðinn á svæðinu, nytjaskógrækt. Hugmyndin var að skógræktin yrði annars vegar skipulögð með viðarframleiðslu í huga, bæði til að fá úr skógunum timbur og eldivið, en hins vegar að gróðursett yrði í skjólbelti til að verja fólk og fénað fyrir vindinum út við ströndina. Í flestum tilvikum voru bæði þessi sjónarmið höfð að leiðarljósi við ræktunina og sitkagrenið var í öndvegi í þessum áætlunum.

Á þeim tíma sem verið var að ýta skógræktaráætlunum á vesturströnd Noregs úr vör bjuggu menn enn við afleiðingar seinni heimsstyrjaldarinnar. Skortur var á byggingarefni og hugur í þjóðinni að nýta auðlindir landsins til að byggja upp aftur eftir stríðið. Að klæða fjallið og fegra hlíðarnar voru viðurkenndar röksemdir. Skógræktin var sameiginlegt verkefni þjóðarinnar. Heilu skólabekkirnir og fleiri þjóðfélagshópar voru virkjaðir og fólk starfaði að þessu af lífi og sál. Í stórum dráttum var þetta mikla skógræktarátak við vesturströndina  mjög árangursríkt. Þarna hefur byggst upp verðmæt timburauðlind og veðurfar er víða við ströndina orðið mun betra í skjólinu sem skógurinn hefur gefið.  Almenn samstaða var um þetta verkefni í samfélaginu. Talað var um að klæða þyrfti strönd og hlíðar.

Eftir því sem skógurinn hefur vaxið upp og sett svip sinn á landslagið hafa hins vegar orðið skiptar skoðanir um afleiðingar þessa ræktunarstarfs. Í umræðunni þykir mörgum sem þessi saga gleymist sem hér hefur verið rakin. Fólk horfi ekki aftur til þess tíma þegar þarna var allt á hverfanda hveli á árunum eftir stríð, landið bert og skóglaust, og ekki sé horft á málið frá sjónarhóli fólksins sem þarna bjó og stjórnaði málum á sínum tíma. Sú mikla gróðurframvinda sem orðið hefur í Vestur-Noregi eftir að verulega dró úr fjárbeit hefur líka leitt til þess að nú er bitist um hvort sé æskilegra, skógur eða „opið landslag“.  Hér spila því margvíslegir þættir saman í umræðunni og allir hafa skoðun á hlutunum.

Sitkagreni á Hörðalandi

Árið 1993 samþykktu yfirvöld skógarmála á Hörðalandi að sveitarfélögin á svæðinu skyldu eftirleiðis fara mjög varlega við ræktun erlendra trjátegunda í nytjaskógrækt, sérstaklega sitkagrenis. Þetta var gert eftir mikla samræðu fjölda fólks úr landbúnaðinum og frá náttúruverndarsamtökum. Ákveðið var að sækja þyrfti um til fylkisstjórnarinnar ef fólk vildi rækta þessar plöntur með styrk frá ríkinu. Að öðru leyti höfðu sveitarfélögin ákvörðunarvaldið. Skjólbeltarækt út við ströndina var undanskilin í þessum ákvörðunum og henni stýrði landsráðgjafi í skjólbeltarækt. Afleiðing þessara tálmana á ræktun erlendra tegunda hefur verið sú að síðustu tuttugu árin hefur lítið verið gróðursett af sitkagreni á Hörðalandi. Áætlað er að einungis tíu prósent grenis í skógum Hörðalands séu sitkagreni (um 44.000 hektarar).

Hágæðaviður

Frá faglegu sjónarmiði er sitkagreni mikilvæg trjátegund. Hún myndar mikinn við, þolir saltrokið af sjónum og stífan vind mun betur en aðrar tegundir. Á heimaslóðum vestan hafs verða trén allt að 90-100 metra há þar sem skjólsælt er og viðurinn er bæði sterkur og léttur miðað við eðlisþyngd. Mestallur viður af sitkagreni er unninn í borðvið, sem hráefni til pappírsframleiðslu og í beðmi eða sellulósa. Viður af sitkagreni hefur nú verið vottaður til notkunar í byggingariðnaði í Noregi eins og verið hefur lengi í bæði Danmörku og Skotlandi. Sitkagreni er sterk og endingargóð viðartegund og Norðmenn hafa notað hana bæði við viðhald og endurbyggingu húsa og í nýsmíði, til dæmis í útihús, sjóhús, bátaskýli og báta.

Jákvæð áhrif ...

Skógrækt út við strönd Vestur-Noregs hefur fleira gott í för með sér. Almenning snertir líklega helst sú veðurfarsbreyting sem orðið hefur með skógunum. Eftir því sem skógurinn vex upp gefur hann betra skjól fyrir vindinum, sérstaklega norðanáttinni sem getur verið köld og hretasöm á þessum slóðum. Jafnvel þótt sitkagrenið vaxi yst við ströndina getur það gefið af sér traustan smíðavið. Í þroskuðustu reitunum fara allt að 75%-85% viðarins í borðviðarvinnslu. Ef sitkagrenið er borið saman við norskt greni kemur í ljós að vöxtur sitkagrenisins er um það bil 30% meiri. Meðalviðarmyndun sitkagrenis nemur milli 2 og 3 rúmmetrum á hektara á hverju ári.

Meðan deilt hefur verið um ágæti sitkagrenisins í Noregi hefur komið til nýtt sjónarmið sem snertir skóga og skógrækt. Það eru loftslagsbreytingar og kolefnisbinding. Engin aðferð hefur enn fundist til kolefnisbindingar sem er öflugri en náttúrleg ljóstillífun. Ef horft er til loftslagsbreytinga er sitkagreni sérlega hentugt tæki til þessara nota. Einn hektari sitkagreniskógar á frjósömu landi getur bundið 13,6 tonn af koltvísýringi árlega. Þetta er um það bil tíu sinnum meira en norskur birkiskógur bindur til dæmis. Því frjósamara sem landið er því meira bindur skógurinn af kolefni.

... og neikvæð áhrif

Í ræktunarátakinu á vesturströnd Noregs var aðallega meiningin að gróðursetja í stór samfelld svæði með viðarframleiðslu í huga. En á þessum árum var einnig gróðursett í bletti hér og þar og á mörkum bújarða auk þess sem eitthvað var sett niður af stökum trjám. Sömuleiðis var nokkuð um að gróðursett væri á svæðum þar sem ekki er hægt að komast að með vélar til að sækja timbrið. Menn sáu að sitkagrenið gat sáð sér yfir á eignarlönd annarra og dugði stakt tré til að fræ gæti borist yfir á land nágranna. Tegundin gat borist inn á beitilönd en líka svæði sem höfðu verndargildi. Lítið gróin svæði og gróðurlausir melar voru sérstaklega berskjaldaðir fyrir sitkagreninu. Tegundin er nú á lista yfir framandi ágengar jurtir sem fluttar hafa verið til Noregs. Sitkagreni er flokkað sem „sérlega varasamt“ (særs høg risiko) fyrir norska náttúru. Tegundirnar á þessum lista eru taldar geta stofnað staðbundnum einkennisplöntum í hættu og haft neikvæð áhrif á náttúrugerðir. Lyngheiðar út við sjó eru nefndar sem dæmi um svæði sem séu í hættu ef sitkagrenið berst þangað.

Eftir þessa reynslu af gróðursetningum hafa komið í ljós óæskilegar afleiðingar sem menn höfðu ekki séð fyrir. Í bæklingi fylkisstjórnarinnar á Hörðalandi segir að ef markvisst er litið til þessara þátta við ræktunina eigi að vera hægt að sneiða hjá þessum ókostum sitkagrenisins og um leið að njóta arðsins af því mikla magni hágæðatimburs sem tegundin gefur.

Ráðleggingar um meðferð og nýtingu

Skógareigendur geta haft samband við yfirvöld skógarmála í sínu heimahéraði og fengið þar ráð um hvernig best sé að fara með sitkagreniskóginn. Áður en hafist er handa er rétt að gera mjög vel ígrundaða áætlun um hvernig staðið skuli að verki, ákveða hvað skuli standa áfram og hvað skuli fella svo að sem mest verðmæti fáist úr skóginum.

Að fjarlægja allt sitkagreni á tilteknu svæði er yfirleitt bæði illframkvæmanlegt og óraunhæft. Hins vegar er hægt að taka til ýmissa ráðstafana til að draga úr áhrifum þeirra ókosta sem helst er hamrað á með sitkagrenið. Þar má nefna stök tré eða trjálundi sem geta sáð sér út þar sem talið er óæskilegt að sitkagrenið nái rótfestu, til dæmis nærri svæðum sem hafa mikið líffræðilegt verndargildi.

Sitkagreniskógar á frjósömum svæðum eru gjarnan fullvaxnir við fimmtíu til sextíu ára aldur. Verðmæti skóganna eykst hratt þegar þeir eru orðnir fjörutíu ára. Góðir skógarreitir sem ekki eru fyrir neinum og stofna ekki verðmætum náttúrusvæðum í hættu ættu því að mega standa, að minnsta kosti þar til þeir hafa náð fullum þroska og gefið af sér hámarksverðmæti. Efnahagslega er það skynsamlegt, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið.

Því næst er í bæklingnum lögð áhersla á að skógareigendur hugsi sig vel um áður en skógar eru felldir. Það sé dýrkeypt útsýni ef skjólsins nýtur ekki lengur við af skóginum. Varlega þurfi að fara við að fella tré í skógarjöðrum því þau skýli sjálfum skóginum fyrir stórviðrum. Stór tré nærri húsum sé hins vegar ráðlegt að fella áður en þau verði of stór til að vera vel viðráðanleg. Mikilvægt sé að leita ráða hjá fagfólki um öll þessi mál. Fólk verði líka að setja niður fyrir sér hvernig það hyggst nýta land sem skógi er rutt af og hvað líklegt sé að vaxi þar upp í staðinn ef ekkert er gert. Ef skógur vex þar upp aftur á náttúrlegan hátt þarf ekki síður að hirða um hann en þann sem var felldur og ef fólk vill fá graslendi í stað skógar þarf að beita landið nógu mikið til að halda trjávexti niðri.

Loks eru í bæklingnum gefnar ráðleggingar um hvaða sitkagreniskóga sé vert að halda í og hverja sé frekar rétt að fella. Rétt sé að leyfa skógum að vaxa áfram þar til þeir geta gefið hámarksuppskeru nema þyngra vegi aðrir hagsmunir eins og nálægð við viðkvæm svæði sem ekki er talið gott að tegundin breiðist út til. Nú þurfa allir sem vilja nota sitkagreni í nytjaskógrækt á Hörðalandi að sækja um leyfi til fylkisstjórnar. Ekki er bannað að gróðursetja sitkagreni en þess er krafist að sótt sé um leyfi eftir ákveðnum reglum.  

Hlekkir:

Byggt á bæklingnum Sitkagran, en verdfull ressurs – men utfordrande treslag sem gefinn er út af landbúnaðardeild fylkisstjórnarinnar í Hörðalandi.

Fylkesmannen i Hordaland
Landbruksavdelinga
Kaigt. 9
5020 Bergen
55 57 20 00
www.fylkesmannen.no/hordaland

Myndir: Wikimedia Commons: MPF og Halvard