Álmur
Árið 2020 mældist álmur í Múlakoti í Fljótshlíð 20,54 metrar á hæð. Þar með bættist hann í flokk þeirra trjátegunda sem náð hafa tuttugu metra hæð hérlendis. Þær eru nú tíu og nefnast í stafrófsröð alaskaösp, álmur, blágreni, degli, evrópulerki, fjallaþinur, rauðgreni, rússalerki, sitkagreni og stafafura. Fáeinar tegundir í viðbót nálgast tuttugu metra markið, skógarfura, hengibirki, gráelri, blæelri og askur. Álmur er trjátegund sem mætti gefa meiri gaum hérlendis, til dæmis sem götutré, enda vindþolinn og þolir einnig vel salt og loftmengun.
17.07.2023