Árið 2020 mældist álmur í Múlakoti í Fljótshlíð 20,54 metrar á hæð. Þar með bættist hann í flokk þeirra trjátegunda sem náð hafa tuttugu metra hæð hérlendis. Þær eru nú tíu og nefnast í stafrófsröð alaskaösp, álmur, blágreni, degli, evrópulerki, fjallaþinur, rauðgreni, rússalerki, sitkagreni og stafafura. Fáeinar tegundir í viðbót nálgast tuttugu metra markið, skógarfura, hengibirki, gráelri, blæelri og askur. Álmur er trjátegund sem mætti gefa meiri gaum hérlendis, til dæmis sem götutré, enda vindþolinn og þolir einnig vel salt og loftmengun.
Aaron Shearer, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, leiðbeinir á námskeiði um áhættumat trjáa sem haldið verður í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi 21. september. Námskeiðið hentar öllum þeim sem vinna við trjáklippingar, ráðgjöf, framkvæmdir í og við græn svæði og önnur störf tengd umhirðu trjágróðurs.
Starf forstöðumanns sameinaðrar stofnunar Skógræktarinnar og Landgræðslunnar var auglýst laust til umsóknar 16. júní. Umsóknarfrestur er nú útrunninn og hefur matvælaráðuneytið birt nöfn umsækjenda. Þeir voru níu talsins og þar af eru fimm starfsmenn Skógræktarinnar.
Nú er sumarið að ná hámarki og lífkerfið á fullri ferð. Þetta á þar með líka við skaðvaldana sem herja á tré og runna. Líkt og fyrri ár óskar Skógræktin eftir upplýsingum frá almenningi um skaðvalda á trjám um allt land og sömuleiðis um almennt ástand skóga, svo sem áhrif tíðarfars eða einstakra óveðra.
Auk þess að binda kolefni þurfa skógar sem ræktaðir eru á Íslandi að þola þær loftslagsbreytingar sem fram undan eru og vera fjölbreyttir. Stórauka þarf fræðslu um skóga og skógrækt meðal almennings og í skólum. Mikil tækifæri eru líka í skjólbeltarækt við akra og tún. Að skógrækt sé skipulagslaus, illa ígrunduð og óheft er rangt.