Fulltrúar skógarplöntuframleiðenda hittust í liðinni viku á fundi með sérfræðingum frá Skógræktinni og sviðstjóra skógarþjónustu. Mikil ánægja var með fundinn og áhugi er á því að slíkt samtal fari reglulega fram, til dæmis einu sinni á ári.
Í heildina er tap kolefnis úr forða jarðvegs yfirleitt mjög lítið við undirbúning lands til skógræktar, sérstaklega í samanburði við þá miklu kolefnisbindingu sem á sér stað í uppvaxandi skógi. Hérlendar iðufylgnirannsóknir gefa vísbendingar um að áhrif losunar vegna jarðvinnslu séu lítil og skammvinn. Um þetta skrifar Úlfur Óskarsson, verkefnastjóri kolefnismála hjá Skógræktinni, í grein sem birtist á vef Heimildarinnar um helgina.
Ættingjar Þorsteins Valdimarssonar skálds vinna að útgáfu bókverks sem sýnir servíettur þær sem skáldið ritaði á limrur. Allar þessar limruservíettur komu fyrst fyrir almenningssjónir á sýningu sem Bókasafn Kópavogs hélt um ævi Þorsteins og störf haustið 2018 í tilefni af aldarminningu skáldsins.
Í nýjum pistli á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga ræðir Sigurður Arnarson um broddfurur í þjóðskóginum Grundarreit í Eyjafirði. Hann tæpir á sögu reitsins og segir líka sögu nokkurra broddfurutrjáa í reitnum sem hafa náð að geta af sér efnilegar sjálfsánar plöntur. Mögulega sé þar í gangi áhugavert náttúruval.
Garðyrkjubændur eru nú komnir í hóp þeirra bænda sem vinna að ýmsum betrumbótum í búrekstri sínum undir verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður. Bændur á fjórtán nýjum búum tóku nýverið fyrstu skref sín í verkefninu og segjast sjá í því mikil tækifæri. Meðal annars geti bæði sparast vinna og peningar með umbótum í þágu loftslagsins.