Starfshópur um umbætur og hagræðingu vegna girðinga í eigu hins opinbera hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslu þar sem birtar eru tölur um umfang girðinga á vegum opinberra aðila, stofnana og sveitarfélaga. Heildarkostnaður opinberra aðila við girðingar er talinn vera að minnsta kosti um 360 milljónir króna á hverju ári en líklega er kostnaðurinn vanáætlaður. Starfshópurinn vill að kannaður verði ávinningurinn af afgirtum beitarhólfum.
Notendur rafræns dagatals Skógræktarinnar geta nú skipt um skjámynd á tölvum sínum og sett inn dagatal maímánaðar. Á því er ljósmynd Atla Arnarsonar ljósmyndara af sveppnum gullskjálfanda.
Mikilvægt er að fara rétt að á öllum stigum eldiviðargerðar og notkunar eldiviðarins því þá fæst hreinn bruni og góður hiti. Í nýju myndbandi sem Skógræktin hefur gefið út fer Ólafur Oddsson, skógfræðingur, kennari og fyrrverandi fræðslufulltrúi Skógræktarinnar yfir allt þetta ferli og kennir okkur hvernig best er að bera sig að. Um myndbandagerðina sá Hlynur Gauti Sigurðsson.
Í könnun sem nú er lögð fyrir á netinu er fólk spurt um kolefnismál og skógrækt og hvaða nýtingarmöguleika það sjái fyrir sér í skógi. Skógræktin hvetur alla sem vettlingi geta valdið til að taka þátt í könnuninni sem ekki tekur nema 5 mínútur að svara.
Gróðursetning í löndum skógarbænda á Vesturlandi eykst verulega á þessu ári og nú stefnir í mestu gróðursetningu í landshlutanum í ein 15 ár. Tól og tæki þarf í slíkar framkvæmdir, ekki síður en hugvit, þekkingu og mannafla. Gróðursetningarverktaki í Dölum hefur fengið afhent nýtt og öflugt tæki til jarðvinnslu fyrir skógrækt.