Nýja TTS-herfið tilbúið til notkunar. Ljósmynd: Guðmundur Freyr Geirsson
Nýja TTS-herfið tilbúið til notkunar. Ljósmynd: Guðmundur Freyr Geirsson

Gróðursetning í löndum skógarbænda á Vesturlandi eykst verulega á þessu ári og nú stefnir í mestu gróðursetningu í landshlutanum í ein 15 ár. Tól og tæki þarf í slíkar framkvæmdir, ekki síður en hugvit, þekkingu og mannafla. Gróðursetningarverktaki í Dölum hefur fengið afhent nýtt og öflugt tæki til jarðvinnslu fyrir skógrækt.

Að sögn Sæmundar Kr. Þorvaldssonar skógræktarráðgjafa er gert ráð fyrir því að gróðursettar verði hartnær 800.000 plöntur á Vesturlandi í ár. Nálgast gróðursetning í landshlutanum því góðu árin 2004 og 2005 þegar sett var niður hartnær ein milljón trjáplantna á Vesturlandi hvort ár.

Auknir kraftar í kögglum

Jarðvinnsluverktakinn Guðmundur Freyr Geirsson, bóndi í Geirshlíð í Hörðudal í Dölum, hefur nú bætt við vélakost sinn til að búa sig undir stórauknar skógræktarframkvæmdir í landshlutanum. Nýlega fékk hann afhent svokallað TTS-herfi sem er góð viðbót við gömlu sænsku skógarstjörnuna sem hefur verið nánast eina jarðvinnsluverkfærið í skógrækt á Vesturlandi í 20 ár eða svo. Nýja tækið er frá Lettlandi og er flutt inn af fyrirtækinu Vorverki í Mosfellsbæ.

Tilgangur jarðvinnslu

Guðmundur verktaki stoltur við tækið nýja frá Vorverki. Ljósmynd: Hrefna HrólfsdóttirÍ bæklingi Skógræktarinnar, Fræðsluefni um skógrækt, segir meðal annars um tilgang jarðvinnslu:

  • Að minnka samkeppni frá öðrum gróðri
  • Að örva næringarefnahringrás jarðvegsins
  • Að búa til skjólgott plöntuset (nærskjól)
  • Að flýta fyrir þiðnun jarðvegs
  • Að hækka hitastig jarðvegs
  • Að auðvelda gróðursetningu

Rannsóknir og reynsla síðustu ára sýnir ótví­rætt að í skógrækt er jarðvinnsla nauðsynleg til að tryggja góðan vöxt og viðgang trjá­plantna. Það sem átt er við með jarðvinnslu er þegar svarðgróðurinn (gras og annar gróður) er fjarlægður, sem annars tekur næringu og vatn frá nýgróðursettum plöntum auk þess að skyggja á þær og kæfa. Tilgangur jarðvinnslu getur verið mismun­andi eftir því hver landgerðin er. Í gróskumiklu landi er jarðvinnsla nauðsynleg til að halda aftur af samkeppnisgróðri nógu lengi til að trjáplöntur komist fljótt og örugglega í fullan vöxt en kafni ekki í öðrum gróðri. Grösugt land frá náttúrunnar hendi er frjótt og þar mun trjá­gróður vaxa best þegar fram líða stundir.

Á öðrum stöðum er jarðvinnsla nauðsynleg til að fjarlægja einangrandi lag gróðurþekjunnar og hækka þannig hitastig jarðvegsins sem leiðir af sér aukið niðurbrot lífrænna efna og losun mikilvægra næringarefna. Þetta á eink­um við þar sem mosi og lyng myndar þykka mottu ofan á jarðveginum. Hér er því um að ræða fremur grunna jarðvinnslu. Ýmsar gerðir af herfum og jarðtæturum eru notaðar við slík­ar að stæður.

Jarðvinnsla með TTS-herfi. Ljósmynd: Bergsveinn ÞórssonVið jarðvinnsluna hækkar jarðvegshiti og kal­hætta minnkar. Það dregur úr samkeppni um vatn, næringu og birtu. Auk þess fær trjáplant­an næringu frá rotnandi gróðurmottunni sem flett hefur verið af og í sumum tilfellum auk­ast skjóláhrif við slíka aðgerð. Ókostirnir felast í aukinni hættu á frostlyftingu en við því má bregðast með því að gróðursetja á vorin og bera á trjáplönturnar strax við gróðursetningu.

Í landi sem hefur verið jarðunnið og sam­keppnisgróður fjarlægður nýtist áburður betur en annars. Loks má nefna að jarðvinnsla dregur úr hættu á kali síðsumars með því að auka hitaleiðni jarðvegs og hindra þannig að frost verði niðri við jörð í fyrstu næturfrostum áður en trén hafa búið sig undir veturinn.

Jarðvinnsla í skógrækt er alltaf í þróun. Því er mikilvægt að kynna sér nýjungar. Nánar má lesa um jarðvinnslu í bæklingi Skógræktarinnar, Fræðsluefni um skógrækt.

Texti: Pétur Halldórsson