Starfshópurinn leggur meðal annars til að samspil búvörusamninga og girðinga verði kortlagt. Ljósmyn…
Starfshópurinn leggur meðal annars til að samspil búvörusamninga og girðinga verði kortlagt. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Starfshópur um umbætur og hagræðingu vegna girðinga í eigu hins opinbera hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslu þar sem birtar eru tölur um umfang girðinga á vegum opinberra aðila, stofnana og sveitarfélaga. Heildarkostnaður opinberra aðila við girðingar er talinn vera að minnsta kosti um 360 milljónir króna á hverju ári en líklega er kostnaðurinn vanáætlaður. Starfshópurinn vill að kannaður verði ávinningurinn af afgirtum beitarhólfum.

Auk talna um heildarkostnað birtir hópurinn þar greiningu á helstu hagsmunum, áskorunum og tækifærum til úrbóta við núverandi aðstæður s.s. með tilliti til kostnaðar, gróðurverndar, ræktunar, dýraverndar og umferðaröryggis.

Starfshópinn skipaði umhverfis- og auðlindaráðherra og í honum sitja fulltrúar Vegagerðarinnar, Land­græðslunnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Skógræktarinnar, Matvælastofnunar og Bænda­samtak­anna.

Í skýrslunni kemur fram að starfshópurinn telji mikilvægt að tengja saman ólíka hagsmuni, t.d. sauðfjár­búskap, landvernd, ferðaþjónustu, umferðaröryggi og skógrækt. Á vissum stöðum geti falist tækifæri í því að sameinast um að girða ákveðin landsvæði af til beitar. Annars staðar geti tækifæri falist í því að banna lausagöngu búfjár en styrkja eigendur búfjár jafnframt til þess að girða búfé sitt af.

Heildarkostnaður opinberra aðila við girðingar á árabilinu 2015 til 2020 er 2.149 milljónir, eða um 358 milljónir á ári. Ekki bárust gögn frá öllum aðilum og því líklegt að þessi kostnaður sé vanáætlaður, segir í frétt á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Þar kemur einnig fram að starfshópurinn leggi meðal annars til að:

  • tekið verði saman eignasafn girðinga opinberra aðila sem inniheldur a.m.k. stofnár, lengd og tegund girðingar
  • unnin verði sameiginlegur gagnagrunnur opinberra aðila um girðingar og honum deilt í vefsjá
  • farið verði yfir ástand girðinga og hvort þær eru í nægilega góðu ástandi til að sinna vörslugildi
  • lög og reglugerðir sem gilda um girðingar og ábyrgð á þeim verði samræmd og endurskoðuð
  • unnin verði þarfagreining á girðingum eftir landshlutum og í kjölfarið stefna og áætlun um girðingar opinberra aðila
  • lög sem gilda um búfjárhald verði samræmd og endurskoðuð, samspil búvörusamninga og girðinga verði kortlagt
  • kannað verði hver sé ávinningur þess að vera með afgirt hólf/landsvæði. Til þess þarf að tengja saman ólíka hagsmunaaðila og finna sameiginlegar lausnir með bætta landnýtingu að leiðarljósi

Starfshópurinn starfar áfram og vinnur að gerð tillagna að verkefnum sem leitt geta til ávinnings og bygg­jast á samráði við þá sem best þekkja til aðstæðna á hverju svæði. Gert er ráð fyrir að slíkar tillögur verði kynntar ráðuneytum umhverfis- og auðlindamála, landbúnaðar- og samgöngumála ásamt sveitar­stjórn­um eigi síðar en 1. október.

Texti: Pétur Halldórsson