Landsvirkjun er með í smíðum göngu- og reiðbrú yfir Þjórsá rétt fyrir ofan Þjófafoss sem tengir saman sveitarfélögin Skeiða- og Gnúpverjahrepp annars vegar og hins vegar Rangárþing ytra. Límtré úr íslensku greni er notað í burðarvirki og gólf brúarinnar og hún er því fyrsta meiri háttar mannvirkið sem gert verður úr alíslensku límtré. Þegar smíðinni lýkur verður þessum sveitarfélögum afhent brúin til eignar.
Tæplega fjörutíu rúmmetrum af kurli úr íslensku lerki var skipað út í gær í ferjuna Norrænu þegar hún lá við bryggju í Seyðisfjarðarhöfn. Kurlið verður notað á gólf í reiðhöll í Færeyjum. Þetta er í fjórða sinn sem Skógræktin sendir kurl til Færeyja.
Götur í öllum hverfum fá grænna yfirbragð og meiri gróður, græn svæði og almenningsgarðar verða fegraðir, ásýnd borgarinnar verður blómlegri og skógrækt aukin með gróðursetningu Loftslagsskóga Reykjavíkur. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 og fimm ára áætlun 2020-2025 sem hvort tveggja var samþykkt í borgarstjórn í vikunni. Ræktun Loftslagsskóga Reykjavíkur er þegar hafin og þar er áætlað að bindist 7 tonn af koltvísýringi á hverju ári að meðaltali næstu hálfa öldina.
Nemendur Kirkjubæjarskóla og Heilsuleikskólans Kærabæjar á Kirkjubæjarklaustri vinna þessa dagana að því að búa til ævintýraskóg í Skógarlundinum á Klaustri í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð og Skógræktina. Markmiðið er meðal annars að fólk hafi stað til að upplifa jólastemmningu án þess að hafa áhyggjur af sóttvörnum.