Flutningabíll lestaður með íslensku viðarkurli á starfstöð Skógræktarinnar á Hallormsstað. Ljósmynd:…
Flutningabíll lestaður með íslensku viðarkurli á starfstöð Skógræktarinnar á Hallormsstað. Ljósmynd: Þór Þorfinnsson

Tæplega fjörutíu rúmmetrum af kurli úr íslensku lerki var skipað út í gær í ferjuna Norrænu þegar hún lá við bryggju í Seyðisfjarðarhöfn. Kurlið verður notað á gólf í reiðhöll í Færeyjum.

Kaupandi kurlsins eru þau Leif Berg og Jacklin Djurhuus sem reka hestaþjónustuna Berg Hesta í Þórshöfn. Þetta er ferðaþjónustufyrirtæki sem býður upp á styttri reiðtúra og lengri hestaferðir en einnig mat og gistingu. Þótt fyrirsögn þessarar fréttar bendi til annars notast fyrirtækið við íslenska hesta og þeir fá nú að hlaupa um í reiðhöllinni á íslensku lerkikurli sem er mjúkt undir hófa, rykast lítið upp og ilmar vel. Hesthús fyrirtækisins eru þau stærstu í Færeyjum og þar er rekinn reiðskóli, fatlaðir njóta þar þjálfunar og fleira og fleira. Nánar má fræðast um starfsemi Berg Hesta í Færeyjum í myndbandinu hér að neðan.

Að sögn Þórs Þorfinnssonar, skógarvarðar á Hallormsstað, er þetta í fjórða sinn sem Skógræktin selur kurl til Færeyja. Flutningsleiðin er hagkvæm enda þarf einungis að aka um 50 kílómetra niður á Seyðisfjörð og um borð í ferjuna. Örstutt er svo frá ferjuhöfninni í Þórshöfn að athafnasvæði Berg Hesta.

Texti: Pétur Halldórsson