Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins 2. maí var rætt við Lárus Heiðarsson, skógfræðing og skógræktarráðunaut hjá Skógræktinni um mikinn trjávöxt undanfarin ár. Sýnt er dæmi um sitkagreni á Héraði sem óx 70 sentímetra síðasta sumar. Útlit er fyrir góðan vöxt í sumar, ekki síst á stafafuru sem tekur út góðan vöxt ef sumarið á undan var gott.
Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur og sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá, varði á föstudaginn var doktorsritgerð við Kaupmannahafnarháskóla.
Greinilegur munur sást á plöntuvali móhumlu fyrri og seinni hluta sumars í athugun sem gerð var á tveimur stöðum á Suðvesturlandi, í Heiðmörk og við Vífilsstaðavatn. Um þetta má lesa í grein eftir Jonathan Willow sem komin er út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences.
Búnaðarfélag Fljótsdalshrepps hefur fest kaup á útkeyrsluvél finnskrar gerðar sem hentar vel í ungum skógum þar sem unnið er að millibilsjöfnun og fyrstu grisjun. Armur vélarinnar nær 4,2 metra en að auki er á vélinni spil til að draga bolina að.
Nær allir starfsmenn Skógræktarinnar komu í síðustu viku saman á Hótel Kjarnalundi í Kjarnaskógi. Farið var yfir hvernig til hefði tekist með hina nýju stofnun og ýmis mál reifuð. Að sjálfsögðu voru líka skoðaðir eyfirskir skógar.