Lárus Heiðarsson skógræktarráðgjafi bendir á myndarlegan ársprota á lerki. Sitkagreni og fleiri tegu…
Lárus Heiðarsson skógræktarráðgjafi bendir á myndarlegan ársprota á lerki. Sitkagreni og fleiri tegundir uxu líka mjög vel á síðasta ári en búast má við að hlýindin í fyrra skili sér í sumar hjá stafafurunni.

Dæmi um 70 cm ársprota á sitkagreni á Héraði 2016

Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins 2. maí var rætt við Lárus Heiðarsson, skógfræðing og skógræktarráðunaut hjá Skógræktinni, um mikinn trjávöxt undanfarin ár. Sýnt er dæmi um sitkagreni á Héraði sem óx 70 sentímetra síðasta sumar. Útlit er fyrir góð­an vöxt í sumar, ekki síst á stafafuru sem tekur út góðan vöxt ef sumarið á undan var gott.

Frétt Rúnars Snæs Reynissonar frétta­manns er á þessa leið:

Síðasta sumar stækkuðu tré óvenju mikið í skógum á Norður- og Austurlandi og á Héraði má sums staðar sjá tré sem með trjátoppa sem virðast ofvaxnir. Fleira en góð tíð gæti útskýrt mikinn trjávöxt og uppi eru kenningar um að sveppir hafi hjálpað trjánum að dafna svona vel.

Í Fljótsdal hófst ræktun nytjaskóga á Íslandi fyrir tæpum 50 árum og þar þykja skilyrði til skógræktar góð. Síð­ustu fimm ár hafa skógar á landinu öllu vaxið vel og þessi mikli vöxtur sést hvað best á yngri trjám. Við skoðum sitkagreni í góðum vexti við Skógarbala ásamt Lárusi Heiðarssyni, ráðgjafa hjá Skógræktinni, og fljótt sést að síðasta sumar sker sig úr. „Þá er það sprotinn frá því í fyrra. Sumarið í fyrra var mjög gott og sá sproti er hvorki meira né minna en 70 sentímetrar. Sem er mjög gott á okkar breiddargráðu. Þetta tré, það er gróðursett fyrir svona 15 árum síðan. Fyrstu tíu árin óx það 170 sentímetra en síðustu fimm ár hefur það bætt við sig þremur metrum, þannig að meðal ársvöxturinn síðustu fimm ár hann er 60 sentímetrar,“ segir Lárus.


Við skoðum líka fjögurra ára lerki sem óx sumt í fyrra jafnmikið og þrjú árin þar á undan. Tré taka reyndar vaxtarkipp á ákveðnum aldri og fleira gæti haft áhrif. „Við erum hugsanlega að fá fleiri svepp­rætur hérna sem trén lifa í sambýli við og auka þá vöxtinn líka. Þannig að þetta eru trúlega nokkrir þættir sem spila saman og valda þessum mikla vexti,“ segir Lárus.

Hann segir að þessi mikli hæðarvöxtur eigi ekki að hafa áhrif á viðargæði. Sumar tegundir lifa í núinu og vaxa mikið í góðri tíð, aðrar, eins og stafafura, lifa í fortíðinni og taka mið af sumrinu á undan. Stafafuran ætti því að vaxa vel á næstu mánuðum. „Þær trjátegundir sem við erum að rækta að þær vaxa jafnvel eða betur en trjátegundirnar sem Norðmenn, Svíar og Finnar eru að nota á sambærilegum breiddargráðum. Þannig að hér eru öll skilyrði til að stunda mikla skógrækt með ágætis hagnaði,“ segir Lárus Heiðarsson, ráðgjafi hjá Skógræktinni.