Vaxandi þörf er fyrir hentug tæki til skógarumhirðu og skógarnytja hérlendis. Í ungum skógum getur v…
Vaxandi þörf er fyrir hentug tæki til skógarumhirðu og skógarnytja hérlendis. Í ungum skógum getur verið kostur að nota smærri vélar sem geta smeygt sér milli trjánna án þess að höggva þurfi fyrir þær leið.Hér standa þrír skógarbændur í Fljótsdal glaðbeittir á svip við vélina nýju, þeir Þorsteinn Pétursson Lárus Heiðarsson og Sveinn Ingimarsson.

Hentar vel til vinnu í ungum skógum

Eftir því sem skógarnir vaxa upp eykst þörfin fyrir bæði þekkingu og tæki til skógar­umhirðu og skógarnytja. Smám saman bætist við þann búnað sem til er í landinu og nú hefur Búnaðarfélag Fljóts­dalshrepps keypt frá Finnlandi sérhæfða vél til að aka timbri út úr skógi.

Útkeyrsluvél sú er frá fyrirtækinu Usewood og er af gerðinni Log Master. Vélin er hugs­uð til útkeyrslu á smærra efni og hentar mjög vel í skógum sem verið er að millibils­jafna og grisja í fyrsta sinn. Mikið er einmitt um skóga á því vaxtarstigi í Fljótsdal og ærið verk fram undan.

Vélin nýja er lipur og fyrirferðarlítil, 1,5 metrar á breidd en með krana sem nær nær 4,2 metra til að tína upp timbrið og stafla því á pallinn. Að auki er spil á krananum sem notast má til að spila við að vélinni svo að kranin nái til hans. Þarna er því komið mjög hentugt tæki fyrir skógar­bændur í Fljótsdalshreppi sem án efa á eftir að koma að góðum notum. Hugmyndin er að bændur leigi vélina af Búnaðarfélaginu og noti sjálfir við að aka timbri út úr skógum sínum.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Þór Þorfinnsson