Hinn nýbakaði doktor, Brynjar Skúlason, og leiðbeinandi hans, Ulrik Bräuner Nielsen, takast í hendur…
Hinn nýbakaði doktor, Brynjar Skúlason, og leiðbeinandi hans, Ulrik Bräuner Nielsen, takast í hendur að vörninni lokinni. Á myndinni er líka Vivian Kvist Johannsen sem einnig er vísindamaður við Kaupmannahafnarháskóla.

Brynjar Skúlason varði doktorsritgerð 28. apríl

Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur og sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá, varði á föstudaginn var doktors­ritgerð við Kaupmannahafnarháskóla.

Verkefni hans ber heitið Provenance varia­tion in subalpine fir grown as an exotic tree species in Denmark and Iceland. Í rann­sókninni var gerð samanburðartilraun með 26 kvæmum fjallaþins bæði í Danmörku og á Íslandi. Brynjar vinnur nú að kynbótum á fjallaþin til jólatrjáaframleiðslu. Settir verða upp frægarðar með bæði bláu og grænu afbrigði kynbættra trjáa svo rækta megi fræ til þeirrar framleiðslu.

Leiðbeinandi Brynjars við doktorsverkefnið var Ulrik Bräuner Nielsen, vísindamaður við rannsóknarsvið Kaupmanna­hafnarháskóla í skógerfðafræði og líffjölbreytni, Forest Genetics and Diversity, sem er hluti af lífvísinda- og auðlindadeild háskólans.

Útdráttur

Vaxandi áhugi er í Danmörku og á Íslandi að nýta norður-amerísku trjátegundina fjallaþin (Abies lasiocarpa var. lasio­carpa (Hook.) Nutt.) sem jólatré, þá sem viðbótartegund í Danmörku en jafnvel sem aðaltegund á Íslandi.

Samanburðartilraun með 26 kvæmum, með bæði grænu (A. lasiocarpa var. lasiocarpa) og bláu (A.lasiocarpa var. arizonica (Merriam) Lemmon) afbrigði fjallaþins, var gróðursett á þremur stöðum í Danmörku og einum stað á Íslandi (Hallormsstað) vorið 1999. Á 15 ára tímabili frá gróðursetningu tilraunarinnar fóru fram mælingar og mat á aðlögun kvæmanna, jólatrjáagæðum, vaxtartakti og næmni þeirra fyrir sjúkdómum og sníkjudýrum.

Marktækur munur var á kvæmum fyrir alla mælda eiginleika. Línulegt samhengi var á milli breiddargráðu og haust­frostþols þannig að nyrstu kvæmin voru fyrst til að mynda brum og byggja upp frostþol að hausti en bláu suðlægu kvæmin síðust. Þau suðlægu voru hins vegar fyrst til að lifna og missa frostþol að vori en munur milli kvæma var minni að vori en hausti.


Fjallaþinskvæmin með uppruna frá vestur­svæði Washington-ríkis og Bresku Kólum­b­íu reyndust almennt best í Danmörku. Þau voru með bestu lifun (15 ár frá gróður­setn­ingu) mestan hæðarvöxt, mestu jólatrjáa­gæðin, hæsta jólatrjáaverðið og höfðu einn­ig góða barrheldni og gott þol gagnvart sjúkdómum og sníkjudýrum. Kvæmin sem voru af bláu afbrigði fjallaþinsins sýndu einnig mikil jólatrjáagæði og mynduðu sjaldnast aukatoppa. Bláa afbrigðið reynd­ist þó hafa minni barrheldni en það græna og næmni þess fyrir átusjúkdómnum Neonectria neomacrospora gerði öll bláu suðlægu kvæmin ónothæf í Danmörku.

Á Íslandi reyndust suðlægu bláu kvæmin afberandi best bæði hvað laut að lifun og jólatrjáagæðum. Kvæmið White River frá fylkinu Bresku-Kólumbíu í Kanada er það kvæmi sem mælt er með fyrir Danmörku. Besta kvæmið fyrir Ísland reyndist vera úr þjóðskóginum Cibola í Nýja-Mexikóríki í Bandaríkjunum. Líkleg kynbótatré voru valin úr hópi bestu kvæmanna í tilraununum í hvoru landi fyrir sig. Greinar af þessum trjám hafa verið græddar á nýja stofna til að gagnast sem frægarðatré í framtíðinni.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Af Facebook síðu rannsóknarsviðs Kaupmannahafnarháskóla í skógerfðafræði og líffjölbreytni