Gróðrarstöðin Barri á Fljótsdalshéraði er nú með samninga um framleiðslu á tæplega 1.400 þúsund skógarplöntum á ári. Skúli Björnsson framkvæmdastjóri telur að nú sé að rofa til í skógrækt á Íslandi eftir samdráttarskeið og lítur björtum augum fram á veginn. Rætt er við Skúla í Bændablaðinu sem kom út fyrir helgi.
Eftir langt og kalt vor er sá tími hafinn þar sem skógar- og garðeigendur fara að taka eftir auknu lífi í gróðri hjá sér. Ekki nóg með að gróður sé allur tekinn að grænka, heldur eru ýmsar aðrar lífverur komnar á kreik, við misjafnan fögnuð mannfólksins. Sumar þessara lífvera eru til mikilla bóta, til dæmis hunangsflugur sem sjá um frævun blóma. Aðrar eiga það til að gerast full nærgöngular við gróður og geta því orðið okkur mannfólkinu til talsverðs ama. Fyrst á vorin ber mest á asparglyttu og haustfeta. Edda S. Oddsdóttir færir okkur fróðleik um málefnið.
Talsvert er spurt um þann hluta asparskógarins í Sandlækjarmýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sem auglýstur hefur verið til sölu. Spildan er í landi Þrándarlundar og á henni er rúmlega tuttugu ára gamall asparskógur og umtalsverð verðmæti í trjáviði. Ánægjuleg tíðindi að menn skuli sjá verðmæti skógar, segir sérfræðingur hjá Skógrækt ríkisins. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Úrvalstré af birkiyrkinu 'Emblu' verða gróðursett í nær öllum sveitarfélögum landsins laugardaginn 27. júní til að minnast þess að á mánudaginn kemur verða 35 ár liðin frá því að frú Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. Þrjú tré verða sett niður á hverjum stað, eitt fyrir stúlkur, annað fyrir pilta og það þriðja fyrir komandi kynslóðir.
Skógardagurinn mikli 2015 var haldinn í einmuna blíðu í Hallormsstaðaskógi laugardaginn 20. júní. Þetta var langbesti sumardagurinn sem komið hefur á Héraði þetta sumarið og aðsóknin eftir því. Fjöldi manns naut veðurblíðunnar og þeirra viðburða sem á dagskránni voru. Lárus Heiðarsson varð Íslandsmeistari í skógarhöggi í sjötta sinn.